þriðjudagur, 10. desember 2019
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

Byrjað var að skera loðnu í nótt

1. mars 2018 kl. 14:50

Frysting á loðnuhrognum hjá HB Granda. (Mynd af vef fyrirtækisins)

Afkastageta HB Granda á Akranesi í hrognaskurði og þurrkun á hrognum fyrir frystingu er um 1.200 til 1.500 tonn af hráefni á sólarhring.

Byrjað var að skera loðnu í nótt og hreinsa loðnuhrogn úr afla sem skip HB Granda - Venus NS - kom með til Akraness. Hrognafyllingin í loðnunni, sem veiddist við Reykjanes, og var þá komin í 24% og þroski hrognanna var um 70%.

Frá þessu segir á heimasíðunni – en öll frysting loðnuhrogna á vertíðinni hjá HB Granda verður á höndum starfsfólks fyrirtækisins á Akranesi.

Um 100 manns vinna í loðnuvinnslu fyrirtækisins á Akranesi og að sögn Gunnars Hermannssonar, sem stýrir vinnslunni, er afkastagetan í hrognaskurði og þurrkun á hrognum fyrir frystingu um 1.200 til 1.500 tonn af hráefni á sólarhring. Síðan er hægt að frysta rúmlega 100 tonn af fullhreinsuðum og þurrkuðum loðnuhrognum á sólarhring.

„Þessi farmur hentaði vel til að byrja vinnslu.  Við viljum gjarnan sjá meiri þroska og hann bara eftir að aukast. Við þurfum að þurrka hrognin í sólarhring áður en að frystingu kemur þannig að loðnuhrognafrysting hefst hjá okkur á morgun,“ segir Gunnar.