mánudagur, 8. mars 2021
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

Caesar endurskapaður í Hnífsdal

Guðsteinn Bjarnason
31. desember 2019 kl. 09:00

Síðutogarinn í götunni er töluvert minni en hann lítur út fyrir að vera á þessari mynd. Líkanið er rúmir tveir metrar á lengd og 35 sentímetrar á breiddina. MYNDIR/Axel Rodriguez Överby

Hnífsdælingurinn Ingvar Friðbjörn Sveinsson hefur af miklu listfengi smíðað nákvæma eftirgerð breska síðutogarans Caesar sem strandaði við innsiglinguna til Ísafjarðar árið 1971.

Breski síðutogarinn Caesar strandaði í aprílmánuði árið 1971 á grynningunum við Arnarnes í Ísafjarðardjúpi. Strandstaðurinn er við mynni Skutulsfjarðar, austan megin, nánast beint andspænis Hnífsdal sem er vestan megin.

Hnífsdælingurinn Ingvar Friðbjörn Sveinsson hefur nú smíðað forláta líkan af skipinu, sannkallaða völundarsmíð sem vakið hefur verðskuldaða athygli,

Ingi Bjössi, eins og hann er iðulega nefndur, hefur lagt sig fram um að líkanið yrði sem allra líkast frummyndinni. Allur búnaður er til staðar og meira að segja ryðblettirnir eru á sínum stað. Hlerar, stýrisbúnaður, björgunarbátar, spil og vírar og reipi. Nostrað hefur verið við hvert smáatriði.

„Það er allt í þarna,“ segir hann. „Trollið er klárt og það er meira að segja hnýtt fyrir pokann. Spilið virkar og akkerisspilið líka. Það er hægt að kúpla saman trollinu og það er hægt að slaka niður björgunarbátunum.“

Efniviðinn í skipslíkanið fékk hann úr ýmsum áttum.

„Trollið fékk ég hjá Hafró, svo fékk ég efnið bara hér og þar sem mér datt í hug. Það er trefjaplast í þessu, og spýtur og ál.“

Sjö mánuðir

Hann er spurður hvort þetta hafi ekki verið mikil vinna.

„Nei, í sjálfu sér ekki. Ég gerði hann á sjö mánuðum, tók vinnutímann á þetta á sjö mánuðum, frá átta til fjögur.“

Svo hló hann þegar baðamaður sagði að það hlyti nú að teljast töluverð vinna.

„Já, en af því maður var ekkert að gera þá lá beint við að fara að gera eitthvað svona úti í bílskúr bara.“

Ingi er staðráðinn í að halda áfram að gera skipslíkön og er að koma sér upp aðstöðu til þess heima í Hnífsdal.

„Ég er bara að gera bílskúrinn kláran, mála gólf og svona. Þá get ég verið þar.“

Hann er ekki búinn að gera endanlega upp hug sinn um hvaða skip verður næst fyrir valinu, en segist langa mjög til að gera Ross Cleveland, annan breskan togara sem fórst í Djúpinu árið 1968. Einn maður komst af, Harry Eddom að nafni, en 58 félagar hans fórust.

Ingvar er hættur á sjónum og þurfti þá að finna sér eitthvað við að vera. Þá kom honum í hug að gera líkan af þessum breska togara sem strandaði stutt frá heimili hans fyrir hátt í hálfri öld.

„Ég er búinn að vera á sjó alveg frá því maður var bara rétt eftir fermingu,“ segir hann. „Núna er maður hættur á sjó og þá er fínt að byrja á þessu.“

Spurður hvers vegna þetta verkefni hafi orðið fyrir valinu segir hann að svo lítið hafi verið fjallað um það á sínum tíma. Það megi vel rifja upp þessa sögu.

Svartolía um allar strendur

Fyrst eftir strandið voru gerðar nokkrar tilraunir til að toga skipið af strandstað. Ekki tókst það og svo illa vildi til að gat kom á skrokkinn við þær tilraunir. Næstu daga og vikur lak mikið magn af olíu úr skipinu og barst á strendur í nágrenninu.

„Það var náttúrlega svartolía úr honum hérna út um allt. Fuglar drápust. Það hefði verið eitthvað sagt um það núna ef þetta væri að gerast nú.“

Á endanum var skipið loks dregið burt, en þá var búið að gera við hann að einhverju leyti. Sú viðgerði dugði þó ekki betur en svo að leki kom að skipinu og sökk það stuttu síðar. Togarinn var þá í Víkurál 39 sjómílur vestur af Bjargtöngum, alveg á kantinum þar sem eru fengsæl togaramið.

„Ég held að það hafi verið einhver hundrað tonn eftir í honum þá, en svartolían er svo þykk að þetta verður bara eins og steypa inni í honum.“

Ingi telur eins og fleiri að það hafi verið fljótfærni að toga Caesar burt af strandstað.

„Þeir ætluðu að toga hann til Englands í brotajárn, en það var ekki hægt og þá ætluðu þeir að fara með hann og sökkva honum fyrir austan land, 300 mílur fyrir austan land, en það var náttúrlega ekkert hægt heldur og þá fóru þeir bara út í Víkurál með hann. Það átti að sökkva honum milli Íslands og Grænlands.“

Sjálfur átti Ingi síðar meir eftir að vera á veiðum á sama stað og Caesar var sökkt úti á Víkurál.

„Þegar ég var á togaranum Guðbjarti, þá festum við í honum hérna úti í Víkurál. Svo var það líka þegar ég var á togaranum Ottó N. Þorlákssyni, þá toguðum við þarna við hliðina á honum og fengum gríðarlega mikinn fisk. Það er mikill fiskur þarna, ufsi og karfi.“

Togaranum var á sínum tíma sökkt með töluverðu magni af svartolíu innanborðs og einhverjir höfðu áhyggjur af því að olían bærist á land þaðan.