þriðjudagur, 21. janúar 2020
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

Chile: Mafían stelur laxi fyrir milljarða

18. janúar 2010 kl. 12:03

Í Chile, sem er næststærsti framleiðandi á eldislaxi í heiminum, stunda skipulögð glæpasamtök umfangsmikinn þjófnaður á laxi. Talið er að stolið sé laxi fyrir jafnvirði 6-7 milljarða íslenskra króna á ári.

Þjófnaðurinn jafngildir 4% af ársframleiðslu á eldislaxi í landinu eða 12.000 tonnum. Hér er um lágmarkstölur að ræða miðaðar við árið 2009, en það ár dróst framleiðslan verulega saman vegna sjúkdóma í eldinu.

Þetta kemur fram í chileanska dagblaðinu El Llangquihue og er byggt á tölum frá samtökum laxeldisfyrirtækja, SalmonChile.

Í frétt á sjávarútvegsvefnum IntraFish segir að Norðmenn sem ferðast hafi um laxafylkin í Suður-Chile hafi tekið eftir strangri varðgæslu við laxeldiskvíar af þessum sökum.

Þjófnaðurinn er bæði úr eldiskvíunum sjálfum og eins er setið fyrir flutningabílum á vegum landsins. Í sumum tilfellum er lögreglu mútað til að láta þjófnaðinn afskiptalausan.

Sumir mafíuhóparnir starfrækja eigin framleiðslufyrirtæki til þess að vinna fiskinn áður en þeir setja hann á markað. Jafnvel er stolið laxi sem á að eyða vegna sjúkdóma og hann reyktur áður en honum er dreift á heimamarkaði.