fimmtudagur, 24. júní 2021
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

Dæmdir menn krefjast aðgerða gegn Íslendingum

14. september 2012 kl. 10:18

Friðrik J. Arngrímsson

Framkvæmdastjóri LÍÚ segir innflutningsbann skýrt brot gegn EES-samningnum.

 

„Það eina sem Evrópusambandinu er heimilt að gera er að beita löndunarbanni á íslensk fiskiskip sem eru á makrílveiðum en allar aðgerðir umfram þær, s.s. innflutningsbann eða slíkt er skýrt brot gegn EES-samningnum, segir Friðrik Arngrímsson framkvæmdastjóri LÍÚ í frétt á vef samtakanna. 

Nokkur umræða hefur verið um samþykktina í fjölmiðlum síðasta sólarhring og hafa fallið mörg stór orð um hversu víðtækar aðgerðir ESB kunna að verða. 

Á vef LÍÚ er bent er á að tilskipunin sem Evrópuþingið samþykkti sé almenns eðlis og beinist því ekki eingöngu gegn Íslendingum, heldur öllum ríkjum sem talin eru stunda ofveiði á sameiginlegum fiskistofnum. Þá taki hún eingöngu til þeirra tegunda sem talið sé að séu ofveiddar og annars afla sem veiddur sé í sömu veiðiferð. Því sé ekki hægt að halda því fram að innflutningsbann verði sett á allar íslenskar sjávarafurðir á grundvelli þessarar tilskipunnar. 

„Þá er fráleitt að tala um að Íslendingar stundi ofveiði þar sem Norðmenn og ESB sem veiða 90% af ráðlögðum kvóta. Ísland á allan rétt til veiða á stofnum innan íslensku lögsögunnar. Við höfum ítrekað lagt fram tillögur um að allir dragi úr veiðum svo ekki verði veitt umfram ráðgjöf. En þá þurfum við auðvitað að fá sanngjarnan hlut eins og aðrir. Þá er mikilvægt að það fari fram endurmat á makrílstofninum því gera má ráð fyrir að stofninn sé mun stærri en mælingar vísindamanna benda til," segir Friðrik. 

„Vitað er að Evrópusambandið og Noregur stunduðu stórfelldar veiðar umfram útgefinn kvóta og var aflanum landað framhjá vigt. Þetta hefur skekkt mynd vísindamanna af stofnstærðinni og þarf að endurskoða. Skotar og Írar, sem voru einna stórtækastir í þessari svörtu atvinnustarfsemi, hafa nú verið dæmdir til að greiða háar sektir fyrir þetta athæfi. Þeir fara nú fremstir í flokki þeirra sem krefjast ólögmætra aðgerða gegn veiðum okkar Íslendinga,“ segir Friðrik.