sunnudagur, 15. desember 2019
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

Dagur þorsksins í Húsi sjávarklasans

1. október 2018 kl. 12:00

Kortlagning sjávarklasans.

Um 30 fyrirtæki munu sýna afurðir sínar og tækni og bjóða gestum upp á ýmislegt góðgæti og frumlega rétti.

Á miðvikudaginn kemur - 3. október - efnir Hús sjávarklasans til Dags þorsksins í fjórða sinn. Hús sjávarklasans verður þá opnað öllum áhugasömum og fjöldi íslenskra fyrirtækja mun kynna þær fjölmörgu afurðir sem framleiddar eru úr þorskinum hér á landi og þá tækni sem þróuð hefur verið til að hámarka nýtingu og gæði afurðanna.

Þetta kemur fram í fréttatilkynningu frá Íslenska sjávarklasanum.

Skipulögð dagskrá verður vítt og dreift um Hús sjávarklasans frá kl. 14-17 og munu gestir meðal annars fá tækifæri til að smakka fjölda ólíkra matvæla og fæðubótarefni, kynnast fyrirtækjum og frumkvöðlum í ólíkum geirum, allt frá hátækniiðnaði til fatahönnunar. Um 30 fyrirtæki munu sýna afurðir sínar og tækni og bjóða gestum upp á ýmislegt góðgæti og frumlega rétti.

Þorskurinn, afurðir hans og tækni tengd veiðum og vinnslu hans standa undir útflutningstekjum sem nema minnst 100 milljörðum króna á ári. Með því að halda Dag þorsksins er ætlunin að minna á mikilvægi þorskins fyrir Ísland fyrr og nú, sýna gestum þá ótrúlega fjölbreyttu flóru afurða sem unnar eru úr þorskinum og hvað íslenskum fyrirtækjum og rannsókna- og háskólasamfélginu hefur tekist vel til við að hámarka gæði, nýtingu og afurðaverð þessarar mikilvægu auðlindar.

Þá mun veitingastaðurinn Bergsson RE sem staðsettur er í húsi sjávarklasans og sjávarréttaveitingastaðir í Granda mathöll og Hlemmi mathöll vera með þorskinn í forgrunni á matseðli sínum þennan dag. Rekstraraðilum við Gömlu höfnina og úti á Granda er boðið að taka þátt í deginum með okkur og er fólk hvatt til þess að kíkja á sýningu Sjónminjasafnsins um sjávarútveginn.