þriðjudagur, 22. júní 2021
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

„Dánartíðni" fyrirtækja lægst í sjávarútvegi og framleiðslu

25. janúar 2019 kl. 10:37

Á árunum 2011 til 2015 hættu sjö til átta prósent sjávarútvegsfyrirtækja starfsemi árlega.

Hagstofa Íslands greinir frá því að „dánartíðni fyrirtækja“ hafi verið lægri í sjávarútvegi en flestum öðrum greinum hér á landi á tímabilinu 2011 til 2015.

Á þessum árum var gengið sjávarútveginum afar hagstætt og mikill uppgangur í greininni.

Með dánartíðni fyrirtækja er átt við hlutfall fyrirtækja sem hætta starfsemi.

„Fyrirtæki teljast hætt starfsemi hafi þau hvorki starfsmenn né rekstrartekjur í tvö almanaksár,“ segir í tilkynningu Hagstofunnar. „Árið 2015 var síðasta rekstrarár hjá 2895 fyrirtækjum, en með fyrirtæki er einnig átt við einstaklinga með rekstur á eigin kennitölu. Á síðasta rekstrarári, árið 2015 voru þessi fyrirtæki með 36,5 milljarða í rekstrartekjur og tæplega þrjú þúsund starfsmenn. Flest þessara fyrirtækja voru lítil, þannig voru ríflega 92% þeirra með 0-1 starfsmann og námu samanlagðar rekstrartekjur þeirra tæplega 15 milljörðum. Fyrirtæki sem höfðu 2 eða fleiri starfsmenn á síðasta rekstrarári voru tæp 8% af fjölda en samanlegðar tekjur þeirra voru 21,5 milljarður árið 2015.

Þegar skoðað er hlutfall fyrirtækja sem hætta starfsemi af heildarfjölda virkra fyrirtækja í viðkomandi atvinnugrein þá er hlutfallið hæst í tækni- og hugverkaiðnaði, frá 10-13% árin 2011-2015. Hlutfall fyrirtækja sem hættu í byggingarstarfsemi var á milli 10 til 12% en lægst var hlutfallið í sjávarútvegi og í framleiðslugreinum, á bilinu 6-9%.“