þriðjudagur, 15. júní 2021
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

Danir segjast kunna að meta fisk en borða hann ekki!

20. nóvember 2012 kl. 09:07

Fiskmáltíð

Neytendur segja að hátt verð og bein í fiski hindri aukna fiskneyslu

Þrátt fyrir að Danmörk sé strandríki og góð fiskimið víða við landið borðar meirihluti Dana sjaldan fisk. Ný rannsókn sýnir að Danir bera því við að fiskverð sé of hátt eða þá að þeir þoli ekki bein í fiski. Menn í sjávarútvegi segja hins vegar að þessar mótbárur byggist á misskilningi.

Danska blaðið Politiken birti á dögunum ítarlega umfjöllun um fiskneyslu Dana. Þar voru birtar niðurstöður úr könnun sem gerð var fyrir blaðið. Einnig var leitað viðbragða manna úr greininni.

Fólk í könnuninni var spurt hvers vegna það borðaði ekki fisk oftar en það gerði. Boðið var upp á 20 mismunandi svör um hindranir fyrir meiri fiskneyslu, svo sem að fiskur geymdist illa í kæliskáp, fiskur lyktaði illa og svo framvegis.

Fullyrðingin „Fiskur er of dýr“ fékk áberandi flest atkvæði ef svo má að orði komast. Fullyrðingin „Ég þoli ekki bein í fiski“ var í öðru sæti.

Fullyrðingin „Mig skortir hugmyndaflug til að elda spennandi fiskrétti“ var í þriðja sæti. Fólk setti fullyrðinguna „Börnin mín vilja ekki fisk“ í sjöunda sæti yfir hindranir fyrir meiri fiskneyslu en fyrirfram var búist við að sú ástæða yrði oftar nefnd.

Seljendur á fiski mótmæla því að fiskur sé dýr og telja að fullyrðingar neytenda þar um séu á misskilningi byggðar. Þeir segja að kjötfars kosti það sama og fiskfars. Þeir benda einnig á að fiskur hafi lækkað um 25% í stórmörkuðum síðastliðin tvö ár.

Matvælastofnunin danska ráðleggur að hver Dani eigi að borða 200 til 300 grömm af fiski í viku, þ.e. tvær fiskmáltíðir. Í skoðanakönnun Politiken var einnig spurt hvort fólk kynni að meta fisk. Þá kom í ljós að 82% svarenda sögðu já en aðeins örfáir svöruðu neitandi.

Þversögnin í niðurstöðum könnunarinn er sú að þrátt fyrir að flestir segist kunna að meta fisk og allir þekki og viðurkenni hollustu hans vantar töluvert mikið upp á að fólk borði nógan fisk. Aðeins 16% svarenda borðar fisk tvisvar í viku eða oftar.

Talið er að andúðin á því að kaupa fisk skýrist af fordómum einkum hjá ungu fólki. Fólk sjái fyrir sér fiskinn með roði og beinum og það geri hann ólystugan í hugum þeirra. Fagfólki finnst þetta skrýtið því fiskur í stórmörkuðum, þar sem megnið af fiskinum er keypt, er einmitt seldur þar roðlaus og beinlaus.

Bent er á að lausnin felist meðal annars í því að breyta ímynd fisks sem hráefnis við matreiðslu heima fyrir. Þá þurfi seljendur að gera fiskinn meira aðlaðandi í söluborðum.