föstudagur, 17. september 2021
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

Danir vilja að Íslendingar fái makrílkvóta

4. september 2009 kl. 12:00

,,Það er bara ein leið í stöðunni og hún er sú að láta Íslendinga hafa makrílkvóta,” segir Christian Olesen talsmaður samtaka danskra uppsjávarútgerða. ,,Auðvitað mun það hafa áhrif á okkar félagsmenn og alla aðra, en við teljum að betra sé að fórna 2% af kvótanum fyrir að hleypa Íslendingum inn en að láta þá eyðileggja veiðarnar með því að taka 20%.”

Olesen segir í samtali við sjávarútvegsvefinn IntraFish að bjóða hefði átt Íslendingum að samningaborðinu um makrílinn fyrr, eins og þeir hefðu reyndar óskað eftir fyrir einhverjum árum. Hann minnir þó á að Ísland hafi ávallt mótmælt kvótaákvörðunum Noregs, Evrópusambandsins og Færeyja hvað makrílinn varðar og einnig þeim 2.000-3.000 tonna makrílkvóta sem Íslendingum hafi verið úthlutað en þeir ekki nýtt. Þar sem þeir hafi mótmælt kvótaskiptingunni séu þeir ekki bundnir af henni.

,,Íslendingar hafa hag af því að ýkja aflatölur í þessu máli. Kannski eru tölur þeirra réttar, en þeir hafa ekki sannfært okkur um það,” segir Olesen og bætir við að einn kosturinn í stöðunni sé sá að úthluta Íslandi bráðabirgðakvóta í nokkur ár og sjá hvernig veiðarnar þróist og hvort makríllinn haldi sig áfram í íslenskri lögsögu.