mánudagur, 21. júní 2021
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

Danska stórútgerðin hefur keypt kvótann

9. september 2015 kl. 14:54

Danskt skip.

Gagnrýnin umfjöllun í DR um danska kvótakerfið

Danska ríkissjónvarpið, DR, var með gagnrýna umfjöllun nú í vikunni um danska kvótakerfið og samþjöppun aflaheimilda. Þar kemur fram að fjársterkir aðilar og stórútgerðin hafi náð stórum hluta af kvóta danskra skipa til sín eftir að stjórnvöld leyfðu viðskipti með aflaheimildir árið 2005.

Í samantekt á vef DR segir að í kjölfar samþjöppunar aflaheimilda hafi skipum fækkað úr 1.091 skipi árið 2006 niður í 616 skip árið 2013. Sömuleiðis hafi fiskimönnum fækkað úr 3.241 í 1.875 manns. Þá er birt kort sem sýnir fjölda staða þar sem sjávarútvegur hefur nánast þurrkast út eða dregist verulega saman. 

Þegar sala aflaheimilda var leyfð var stefnt að hagræðingu og sameiningu aflaheimilda að vissu marki. Þróunin hefur hins vegar orðið miklu örari og róttækari en menn gerðu ráð fyrir.

Gagnrýnendur danska kvótakerfisins segja að smærri útgerðarmenn séu nú að verða útdauð tegund. Fulltrúar stórútgerðarinnar benda hins vegar á að þessi þróun hafi verið óhjákvæmileg því ekki hefðu verið nægir kvótar til þess að allir sem fyrir voru hefðu getað rekið útgerð með arðbærum hætt.