fimmtudagur, 24. september 2020
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

Danska þingið eflir smábátaveiðar

11. desember 2019 kl. 16:00

Frá höfninni í Hanstholm í Danmörku. MYND/EPA

Þverpólitísk samstaða í Danmörku um breytingar um löggjöf um smábátaveiðar.

Þverpólitísk samstaða varð á danska þinginu í síðustu viku um breytingar á löggjöf um smábátaveiðar, eða strandveiðar eins og þær nefnast í dönskum fiskveiðireglum.

Samkomulagið felur í sér aukinn stuðning við strandveiðar og sérstakar ívilnanir þá sem teljast stunda umhverfisvænar veiðar.

Í samkomulaginu, sem allir flokkar á þingi standa að, segir að breiður pólitískur vilji sé til þess að „styðja við smærri hafnir ásamt því að ýta undir þróun í fiskveiðum í áttina til aukinnar sjálfbærni og aukinnar nærgætni í garð náttúrunnar.“

Jafnframt er ætlunin að einfalda regluverkið og gera það skiljanlegra.

Í Danmörku verður strandveiðum skipt í fjóra flokka sem skarast, annars vegar flokk tímabundinnar úthlutunar og flokk ótímabundinnar úthlutunar, hins vegar veiðar sem eru umhverfisvænar og veiðar sem ekki teljast umhverfisvænar.

Þeir sem ekki teljast stunda umhverfisvænar úthlutanir fá einfaldan kvóta í tímabundini úthlutun, en fimmfaldan kvóta í ótímabundinni úthlutun.

Þeir sem stunda umhverfisvænar veiðar fá síðan tvöfaldan kvóta í tímabundinni úthlutun en fimmtánfaldan í ótímabundinni úthlutun.

Hugmyndin er sú að einfaldari reglur auðveldi jafnframt eftirlit og umsýslu með veiðunum.