miðvikudagur, 25. nóvember 2020
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

Dapurt yfir humarveiðum

Guðsteinn Bjarnason
29. júlí 2019 kl. 07:00

Humar

Humarveiði ársins er að mestu lokið en veiðin hefur verið léleg eins og búast mátti við. Humarinn hefur ekki verið upp á sitt besta undanfarin ár og engar horfur á að úr rætist næstu árin.

„Veiðin hefur verið mjög döpur í ár,“ segir Jónas Páll Jónasson, fiskifræðingur á Hafrannsóknastofnun.

„Reyndar hafa færri bátar verið að veiðum en í fyrra og svo er búið að loka tveimur svæðum fyrir humarveiðum sem voru kannski þau svæði sem voru hvað skást.“

Lokuðu svæðin eru austast í Lónsdýpi og svo vestast í Jökuldýpi.

Eitt skot en svo ekkert
„Það hefur komið eitt og eitt skot en ekkert sem heitið getur.“

Segja má að Hafró sé með humarinn í gjörgæslu og þær veiðar sem leyfðar eru þetta árið séu eingöngu könnunarveiðar svo fylgjast megi með stofninum.

„Það er búinn að vera nýliðunarbrestur í humrinum mjög lengi og við höfum ekki séð neina stóra árganga koma inn. Í veiðunum núna eru við heldur ekki að sjá neinn stóran árgang koma inn. Þar að auki erum að sjá þessa elstu árganga, sem voru mjög stórir og fínir, vera að detta út líka.“

Jónas segir elstu árgangana sem veiðast yfirleitt vera 15 til 20 ára gamlir, en nýr humar tekur ekki að veiðast fyrr en í fyrsta lagi á fjórða til fimmta ári.

Minnkandi afli
Undanfarin ár hafa humarveiðar við Ísland einkennst af minnkandi afla. Rannsóknir benda til þess að nýliðun í humarstofninum verði áfram með lakasta móti. Ekki er hægt að útiloka bann við humarveiðum á einhverjum tímapunkti  – svo alvarleg er staðan metin og í raun er aðeins veitt úr rannsóknakvóta eins og sakir standa.

Eins og Fiskifréttir sögðu frá í janúar þá brást Hafrannsóknastofnun við bágri stöðu humarstofnsins með að ráðleggja að veiðar yrðu bannaðar á afmörkuðum svæðum og að humarafli ársins 2019 yrði aðeins 235 tonn; 728 tonn voru veidd árið 2018, sem er minnsti afli frá upphafi veiða.

Þéttleiki humarholna við Ísland mælist nú með því lægsta sem þekkist meðal þeirra humarstofna sem Alþjóðahafrannsóknaráðið (ICES) veitir ráðgjöf fyrir. Lengdarmælingar úr afla og stofnmælingum benda einnig til nýliðunarbrests á undanförnum árum.

Um horfur stofnsins segir að fyrirliggjandi gögn benda til að nýliðun sé í sögulegu lágmarki og að árgangar frá 2005 séu mjög litlir. Verði ekki breyting þar á má búast við áframhaldandi minnkun stofnsins.

Afli tvöfaldaðist frá árinu 2004 til ársins 2010 þegar hann náði 2.500 tonnum. Síðan hefur aflinn minnkað og var 728 tonn árið 2018, sem er minnsti afli frá upphafi veiða árið 1957.

Sókn í stofninn hefur verið nokkuð stöðug frá árinu 2009 en afli á sóknareiningu er nú í sögulegu lágmarki. Útgefið aflamark hefur ekki náðst síðustu tvö fiskveiðiár.