sunnudagur, 19. september 2021
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

Dauðaleit að neyðarsendi sem fannst svo í ruslagámi

31. ágúst 2010 kl. 17:35

Mikil leit að neyðarsendi stóð yfir hjá Landhelgisgæslunni og samstarfsaðilum frá sunnudegi og fram á mánudag eftir að neyðarskeyti hófu að berast frá neyðarsendi sem ekki var lengur í notkun. Við eftirgrennslan kom í ljós að honum hafði verið skilað inn til þjónustuaðila sem ekki fór með hann strax til förgunar.

Eftir mikla leit og fyrirhöfn fannst neyðarsendirinn að lokum í ruslagámi hjá Sorpu. Hafði hann þá sent fjölda neyðarskeyta sem bárust með reglulegu millibili til björgunarmiðstöðva beggja vegna Norður Atlantshafsins. Hafa björgunarmiðstöðvar ekki möguleika á að loka fyrir neyðarskeyti  frá sendum sem ekki eru lengur í notkun,  heldur þarf í öllum tilfellum að finna neyðarsendana og fara með þá til förgunar.

Þetta kemur fram í frétt frá Landhelgisgæslunni. Stofnunin vill af þessu tilefni ítreka mikilvægi þess að gömlum neyðarsendum báta, skipa og flugvéla sé strax fargað eftir að þeir eru teknir úr notkun. Handhafar neyðarsenda þurfa að taka rafhlöðu úr og eyðileggja sendinn þ.e. brjóta hann.  Þannig verður komið í veg fyrir mikla leit og fyrirhöfn björgunaraðila.