sunnudagur, 20. september 2020
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

Dauðalogn og grimmdargaddur

18. apríl 2014 kl. 09:17

Narfi RE í ísingu og þungum sjó við Vestur-Grænland árið 1964. (Mynd: Þorsteinn Gíslason)

Söguleg veiðiferð Narfa RE við Vestur-Grænland í fimbulkulda og ísingu.

Jón Marteinn Guðröðsson sjómaður segir frá sjómannsferli sínum í páskablaði Fiskifrétta. Hér grípum við niður í frásögn af  sögulegri veiðiferð á Narfa RE við Vestur-Grænland í ársbyrjun 1964.  

„Upphaflega stóð til að sigla á mið við Nýfundnaland en við enduðum lengst í norðri undan vesturströnd Grænlands vegna þess að það fréttist af góðri veiði þar og óvenjulega góðri tíð. Þegar við komum á svæðið var talsvert af skipum þar fyrir og flest mun betur gerð til veiða svona norðarlega en Narfi. 

Jón Marteinn GuðröðssonÉg man eftir því að það var dauðalogn og frostið var svo mikið að við lentum í vandræðum með að koma veiðarfærunum í sjó. Fyrsta sólarhringinn var ágætisveður en síðar fór að vinda og komin sjö eða átta vindstig og grimmdargaddur áður en við vissum af. Í framhaldinu jókst veðurhæðin og ísinn fór að hlaðast utan á skipið. Þrjóskan var mikil og þar sem við vorum komnir á staðinn ákvað skipstjórinn að við skildum bíða af okkur veðrið. Narfa var siglt upp undir ísröndina og ísinn laminn af í sex eða átta tíma og svo farið út aftur og tekin tvö höl. Eftir tíu daga barning var frostið orðið svo mikið að vatnstankarnir um borð voru botnfrosnir þrátt fyrir að vera sérstaklega einangraðir. 

Áhöfnin var misvel haldin þegar hér var komið vegna kulda og sumir komnir með einkenni kals á höndum í andliti og sérstaklega eyrum. Ég var sjálfur svo illa haldinn af sótthita og snert af lungnabólgu að ég lá flatur í koju. Fljótlega eftir það var farið í land í Fredrikshaab.“

Sjá ítarlegt viðtal við Jón Martein í páskablaði Fiskifrétta