þriðjudagur, 26. október 2021
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

Dæla upp gulli

27. október 2010 kl. 13:29

Hátt verð fæst nú fyrir bræðslufisk í Danmörku og danska ríkisútvarpið segir að uppsjávarskipin dæli upp gulli þessa dagana.

Í sumar gengu veiðar danskra skipa á sandsíli vel og verðið sem fékkst fyrir aflann var nærri tvöfalt hærra en í fyrra. Nú standa hins vegar yfir veiðar á brislingi og þar er sömu sögu að segja. Nefnt er dæmi af skipi sem fékk 83 aura danska (17 ISK) fyrir kílóið af brislingi í fyrra. Nú hefur verðið næstum tvöfaldast og er sem svarar tæpum 34 íslenskum krónum á kílóið. Þetta háa verð þakka danskir sjómenn því að mjölið er eftirsótt í fóður fyrir eldislax í Noregi.

Á fyrstu átta mánuðum ársins er aflaverðmæti danskra skipa sem veiða bræðslufisk 627 milljónir DKK eða 13 milljarðar ISK sem er um 80% aukning miðað við sama tíma í fyrra.