mánudagur, 1. júní 2020
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

DNA-greining gegn tegundasvindli

26. nóvember 2019 kl. 10:10

Blandaður afli. MYND/Einar Ásgeirsson

Danski fóðurframleiðandinn BioMar hefur kynnst búnað sem gagnast gegn tegundasvindli.

Danska fóðurfyrirtækið BioMar hefur kynnt búnað til að DNA-greina sjávarafurðir. Þannig megi með töluverðri nákvæmni greina fisktegundir, og torvelda þar með allt tegundasvindl.

Tegundasvindl hefur verið stórt vandamál víða í sjávarútvegi. Rannsóknir benda flestar til þess að hátt í þriðjungur allra sjávarafurða séu seldar undir fölsku flaggi, ódýrari tegundir á borð við tilapiu séu til dæmis seldar sem þorskur.

Í tilkynningu frá BioMar er haft eftir Vidar Gundersen sjálfbærnistjóra að fyrirtækið geti nú gengið úr skugga um hvort tegundasamsetning í aðkeyptu hráefni samræmist því sem seljandi gefur upp.

„Við gerum ráð fyrir því að þessi nýja DNA-greining muni fá lykilhlutverk við að byggja upp traust milli neytenda og hagsmunaaðila,“ segir hann.

Það er norska tæknifyrirtækið Orivo sem þróaði greiningartæknina í samstarfi við BioMar, en fyrirtækið er einn stærsti fóðurframleiðandi heims í fiskeldi.

Í tilkynningunni segir BioMar að strax fyrir fimmtán árum hafi fyrirtækið áttað sig á því að fiskeldi gæti ekki vaxið á kostnað villtra stofna. Því hafi fyrirtækið lagt áherslu á sjálfbærni og hráefnisþróun en DNA-greining á samsetningu hráefnisins sé næsta skrefið í þeirri vinnu.

Svein Erik Haugmo, framkvæmdastjóri Orivo, segir að byrjað hafi verið á því að greina erfðaefni í nokkrum tegundum af fóðurhráefni, en það sé aðeins lítill partur af „öllum þeim fjölmörgu vandamálum í greininni sem við teljum að hægt verði að leysa með tækninni okkar.“