laugardagur, 28. nóvember 2020
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

Döpur aflabrögð í úthafskarfa

19. júní 2008 kl. 10:23

Eftir þokkalega byrjun á úthafskarfavertíðinni hefur afli íslenskra skipa snarminnkað á síðustu vikum. Alls eru fimm íslensk skip á úthafskarfaveiðum við íslensku landhelgislínuna út á Reykjaneshrygg.

Stærsta útgerðarfyrirtæki landsins, HB Grandi, er með þrjú skip á svæðinu – Þerney, Venus og Helgu Maríu. Fram kemur í frétt á heimasíðu fyrirtækisins að aflabrögð hafi versnað mjög eftir sjómannadaginn.

Birkir Hrannar Hjálmarsson, rekstrarstjóri togara HB Granda, segir tvo tonn á hvern togtíma hafa fengist fyrstu daga við veiðar á Reykjaneshrygg. „ Aflinn hefur verið undir tonni á togtímann síðustu tvær vikurnar og reyndar hefur veiðin farið alveg niður í hálft tonn á togtímann,” segir Birkir.

Slæmt veður hefur verið á miðunum að undanförnu, en í fyrradag birti yfir. Veiðar hafa þó lítið batnað.