föstudagur, 18. júní 2021
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

Dragnótaveiðar í kálgörðum

19. janúar 2019 kl. 07:00

Magnús Jónsson, fyrrverandi Veðurstofustjóri, tók við formennsku í Drangey í haust. MYND/Aðsend

Magnús Jónsson veðurfræðingur og formaður Drangeyjar, smábátafélags Skagafjarðar, gagnrýnir veiðar með dragnót í botni Skagafjarðar. Hann telur nauðsynlegt að taka allar reglur um veiðar með dragnót til endurskoðunar.

Magnús segir það hálfgerða kaldhæðni að á 100 ára afmæli fullveldis landsins skuli togveiðilandhelgi hér við land í reynd orðin svipuð því sem var 1918, þegar hún var þrjár sjómílur, eða jafnvel minni.

„Allt fram um 1952 var talað um að togarar væru upp í „kálgörðum“ með 3 sjómílna fiskveiðilandhelgina. Miðað við það er fyllilega hægt að halda því fram nú, þegar búið er að leyfa togveiðar (dragnótaveiðar) upp í fjörur inn á fjörðum, að búið sé að færa INN landhelgina, jafnvel upp í „innsveitir“,“ skrifar Magnús í nýjasta hefti Brimfaxa, tímariti Landssambands smábátaeigenda.

Magnús greinir frá því að síðastliðinn vetur hafi sjávarútvegsráðuneytið gefið út reglugerð „sem heimilaði ótakmarkaðar dragnótaveiðar á öllum Skagafirði. Þetta var gert í trássi við vilja heimamanna, bæði sjómanna og sveitarstjórnar Skagafjarðar, en fjörðurinn hafði verið lokaður fyrir dragnótaveiðum innan eyja um margra ára skeið.“

Síðastliðið sumar hafi skagfirskir sjómenn og raunar allir Skagfirðingar fengið að sjá afleiðingarnar af þessari ákvörðun ráðuneytisins, þegar nokkrir dragnótabátar hafi mætt inn í botn fjarðarins, „með Hafborgu EA, sem er um 300 tonna skip, í broddi fylkingar inn í botn fjarðarins með „léttu“ snurvoðirnar sínar sem sagðar eru allt að fjórum sinnum stærri en meðalstórt togaratroll.“

Lá við strandi
Magnús segir að svo hart hafi verið gengið fram á þessum veiðum „að stangveiðimenn í fjörunum við Sauðárkrók óttuðust um veiðarfæri sín og við lá að að Hafborgin strandaði við Héraðsvatnaósinn við að koma voðinni nógu nálægt landi.“

Einn smábátur frá Króknum hafi á þessum tíma verið með nokkrar netatrossur í sjó milli Sauðárkróks og Hegraness „og voru þær dregnar með snurvoðinni langt út á fjörð og voru þar með ónýtar. Svipað gerðist svo nú í október þar sem einn smábátur frá Hofsósi lagði ein 25 bjóð af línu á innfjörðinn. Allt fór á sömu leið og með netin og hefur aðeins lítill hluti línunnar fundist eftir að dragnótarbátur togaði yfir hana og olli þar með milljónatjóni.“

Þá fullyrðir Magnús að í haust hafi nokkrir smábátar á Skagafirði nokkrum sinnum reynt að renna fyrir fisk á þeim innfjarðarslóðum sem helst er að vænta fiskjar á firiðnum.

„Skemmst er frá að segja að varla hefur fengist í soðið á þessum slóðum, svo sviðinn virðist innfjörðurinn vera af hvaða ástæðu sem það er.“

Þessi reynsla segir Magnús sýna að veiðar smábáta með línu og net séu ekki mögulegar á opnum togslóðum hvort sem um er að ræða dragnót eða troll.

gudsteinn@fiskifrettir.is