mánudagur, 30. mars 2020
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

Drauganet slædd upp við Noreg

28. september 2011 kl. 13:08

Net á bryggju.

Alls 1100 net fundust að þessu sinni auk fleiri veiðarfæra.

Norska fiskistofan stendur árlega fyrir leiðöngrum á fiskimiðin við strönd Noregs þar sem reynt er að ná upp eins miklu af draugaveiðarfærum og kostur er. Einum slíkum leiðangri lauk nýlega og höfðust 1100 net upp úr krafsinu ásamt töluvert miklu af öðrum veiðarfærum. Þetta er meira en í sams konar leit í fyrra og verulega meira en í hittifyrra, segir á vef norsku fiskistofunnar.

 Þar kemur fram að fiskimenn hafa sýnt ríkan vilja til þess að aðstoða við leitina en samt finnst ekki nærri eins mikið af týndum veiðarfærum og tilkynnt eru strandgæslunni. Þá harmar talsmaður fiskistofunnar að enn skuli trollvírum vera kastað í hafið í töluverðum mæli. Þannig voru 13.000 metrar af trollvír fiskaðir upp í hreinsunarstarfinu á þessu ári. Að auki voru slæddir upp 12.000 metrar af köðlum og 40.000 metrar af línu, auk dragnótar, trollpoka, kóngakrabbagildra og fleira.