mánudagur, 21. júní 2021
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

Draugaskip á reki á N-Atlantshafi

28. febrúar 2013 kl. 14:57

Draugaskipið umrædda.

Gæti flækst inn í íslenska efnahagslögsögu á innan við mánuði.

Skemmtiferðaskipið Lijubov Orlova hefur rekið stjórnlaust og mannlaust á Norður-Atlantshafi síðan í janúar. Verið var að draga það til Dóminíkanska lýðveldisins til niðurrifs þegar það slitnaði frá dráttarskipinu úti fyrir strönd Nýfundnalands. 

Í erlendum fjölmiðlum kemur fram að sést hafi til skipsins úr gervihnetti þar sem það hafi verið statt á miðju Atlantshafi , um 2.400 kílómetra frá Írlandi. Á vef Landhelgisgæslunnar (LHG) segir hins vegar að engin leið er að vita staðsetningu þess fyrr en sjónræn staðfesting fáist.

Á vef LHG segir ennfremur að skipið hafi verið skilið eftir austur af Nýfundnalandi undir lok janúar með ferilvöktunarbúnað í gangi svo hægt yrði að fylgjast með reki þess en staðsetningar hafi hætt að berast frá búnaðinum í byrjun febrúar.

Í sl. viku var talið að rek skipsins væri um 1-2 sjómílur á klst. til norðausturs og var LHG þar með ljóst að ef svo héldi áfram mundi skipið reka inn í leitar- og björgunarsvæði Íslands og síðar íslensku efnahagslögsöguna á innan við mánuði.

Skipið var smíðað árið 1976 og endurnýjað árið 2006. Það er 100 metra langt og 4.000 tonn að stærð. 

Sjá nánar á vef LHG.