föstudagur, 18. júní 2021
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

Dregið óvænt aftur á bak á fullri ferð

8. september 2015 kl. 09:00

Togskipið Karen

Breski sjóherinn viðurkennir loks að kafbátur á hans vegum hafi siglt á veiðarfæri fiskiskips og „tekið skipið í tog“

Breski sjóherinn viðurkennir nú eftir fimm mánaða þögn um málið að breskur kafbátur hafi valdið skemmdum á veiðarfærum norðurírsks togskips og dregið það á eftir sér á miklum hraða á Írska hafinu. Þetta kemur fram í yfirlýsingu frá breska varnarmálaráðuneytinu, að því er segir í frétt á vef BBC.

Atvikið átti sér stað í apríl síðastliðnum.Togskipið Karen var þá statt á veiðum um 18 mílur frá strönd Norður-Írlands. Allt í einu er er eins og kippt sé í bátinn og hann dreginn góða stund á fullri ferð aftur á bak. Áhöfninn slapp ómeidd en sýndi snarræði við að bjarga sér og skipinu. Tjón á skipi og veiðarfærum er metið á 10 þúsund pund, tæpar 2 milljónir ISK.  

Skipstjórinn á Karen hélt því þá þegar fram að kafbátur hefði fest sig í veiðarfærunum og þannig tekið skipið í tog. Breski sjóherinn viðurkennir nú loksins að kafbátur á þeirra vegum hafi verið að verki og býðst til að bæta tjónið. Sagt er að stjórnendur kafbátsins hefðu ekki gert sér grein fyrir að fiskiskipið var með veiðarfærið úti og því ekki gætt nauðsynlegrar varúðar.