sunnudagur, 13. júní 2021
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

Dregur lýsi úr hættu á krabbameini?

23. júní 2009 kl. 15:00

Dregur lýsi úr hættu á krabbameini?

Verið er að hleypa af stokkunum viðamikilli rannsókn í Bretlandi á áhrifum lýsis og D-vítamíns á heilbrigði fólks. Kannað verður sérstaklega hvort lýsið geti minnkað hættuna á því að fólk fái krabbamein, hjartasjúkdóma eða heilablóðfall.

Vísindamenn vara þó við að fólk vænti of mikils af þessum rannsóknum. Miklar vonir voru bundnar við það að C vítamín og önnur vítamín gætu dregið úr hættunni á krabbameini og hjartaáfalli en nýjustu rannsóknir benda til að svo virðist sem þær vonir hafi brugðist. D-vítamínið er eina fjörefnið sem ekki hefur verið rannsakað gaumgæfilega í þessu tilliti.

Erfitt er fyrir fólk að fá nægilegt D-vítamín úr fæðu. Vitað er að tíðni krabbameina er hærra á norðurslóðum þar sem sólar nýtur ekki mikið við. Rannsóknir hafa líka sýnt að fólk með lágt hlutfall D-vítamíns í blóðinu er líklegra til að fá krabbamein. Það er þekkt og löngu viðurkennt að lýsi og Omega-3 fitusýrur eru holl fyrir hjartað en rannsóknir á því hafa hingað til aðallega verið bundnar við fólk sem þegar hefur fengið hjartasjúkdóm.

Rannsóknin hefst síðar á þessu ári og nær til 20 þúsund manna sem hvorki hafa þjáðst af hjartveiki né greinst með krabbamein. Annar hluti hópsins mun taka D-vítamín og drekka lýsi reglulega næstu fimm árin en hinn hluti hópsins, sem rannsakaður verður til samanburðar, mun fá “gervipillur”. Kostnaður við rannsóknina er 20 milljónir dollara, eða 2,5 milljarðar íslenskar krónur.

Heimild: IntraFish