mánudagur, 21. júní 2021
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

Drónar notaðir í selatalningu

3. janúar 2014 kl. 13:51

Drónar hafa aðallega verið í fréttum vegna hernaðaraðgerða en ómönnuð loftför geta verið til ýmissa annarra nota.

Tilraunir gerðar í Vesturísnum djúpt norðan Íslands.

Norska hafrannsóknastofnunin ætlar að gera tilraunir til þess að nota ómönnuð loftför, svokallaða dróna, til þess að telja blöðrusel og vöðusel í Vesturísnum, sem er hafsvæðið djúpt norðan Íslands milli Jan Mayen og Grænlands. 

Þessi aðferð er ódýrari en að nota flugvélar við selatalninguna eins og gert hefur verið hingað til. Drónarnir verða sendir á loft frá íshafsrannsóknaskipi og verða látnir lenda á ísbreiðunni eftir fjögurra tíma flug hverju sinni. Flogið er eftir fyrirfram ákveðnu munstri sem þó hægt er að breyta meðan á fluginu stendur. 

Hingað til hefur selatalningin farið fram úr flugvélum sem haft hafa bækistöð við Scoresby-sund á Grænlandi og með varaflugvöll á Akureyri. Óstöðugt veðurfar á slóðum selanna hefur stundum sett strik í reikninginn í talningunni enda langt að fara.