miðvikudagur, 26. febrúar 2020
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

Eflum konur í sjávarútvegi

8. mars 2019 kl. 11:30

Frá alþjóðaráðstefnu kvenna í sjávarútvegi sem haldin var í Santiago í nóvember 2018. Fimm höfundanna eru á myndinni. MYND/WSI

Ávarp Alþjóðasamtaka kvenna í sjávarútvegi í tilefni af alþjóðadegi kvenna, 8. mars.

Alþjóðadagur kvenna, áttundi mars, minnir okkur á framlag kvenna og þær framfarir sem náðst hafa. Vinnustaðir hafa sumir hverjir tekið þátt í að fagna þessum degi og ýta undir kynjajafnrétti. Engu að síður er það þannig að víða á vinnustöðum ríkir gleymska, vanræksla eða vanþekking um það sem þessi dagur, alþjóðadagur kvenna, stendur fyrir. Við lifum á sögulegum tímum nú þegar meira en nokkru sinni er fjallað um þá staðreynd að konur skuli enn standa höllum fæti í þátttöku sinni í samfélaginu og vinnumarkaðnum. Rétt eins og aðrar karlagreinar er sjávarútvegurinn frjósamur jarðvegur til breytinga, því þar starfa að minnsta kosti 100 milljón konur án þess að hafa þar völd svo neinu nemi.

Margar stofnanir og samtök hafa verið sett á laggirnar í sjávarútvegi og fiskeldi í þeim tilgangi að ná fram kynjajafnrétti og jafnframt leggja drög að stefnu í málefnum kynjanna sem viðurkennir og valdeflir konur í sjávarútvegi. Þótt þetta sé mikilvægt skref, þá þurfum við enn á því að halda að allir helstu aðilar í sjávarútvegi vinni að raunverulegum breytingum. Í dag viljum við vekja athygli og hvetja samfélag sjávarútvegsins, bæði einkageirann og hinn opinbera, til að taka virkari þátt í því að ná fram raunverulegu kynjajafnrétti.

Hvar eru konurnar?
Sjávarútvegurinn er augljóslega starfsgrein þar sem konur eru fjölmennar en karlar ráðandi. Kvenkyns starfsmenn eru jafnan í meirihluta í lítt metnum láglaunastörfum ófaglærðra en karlar eru ráðandi í valdastöðum. Konur eru meira en 15 prósent allra þeirra sem starfa í frumgreinum sjávarútvegsins og fer hlutfall þeirra yfir 20 prósent í ferskvatnsveiðum; þær eru í yfirgnæfandi meirihluta í mannfrekum vinnslugreinum, allt að 85 til 90 prósent heildarvinnuafls í heiminum, og gegna lykilhlutverki í lagareldi með um 30 prósent hlutdeild vinnuafls í laxeldi í Chile,  50 prósent í Sambíu og 72 prósent í Asíu. Á hinn bóginn eru karlar ráðandi á hinum enda virðiskeðjunnar, með 99 prósent allra stjórnenda og 90 prósent stjórnarmanna og leiðtoga fagsamtaka.

Þátttaka og sýnileiki
Enn sem komið er hafa það verið félagasamtök (óháð samtök og félög) ásamt sumum stéttarfélögum sem ýtt hafa undir og barist fyrir því að því að auka sýnileika kvenna í greininni og bæta vinnuaðstæður þeirra. Meðal þeirra skara eftirfarandi framúr: 

Konur í sjávarútvegi í Ástralasíu (Women In Seafood Australasia, WISA), sem vinnur að því að efla getu kvenna til að ná áhrifum í þróun og vexti sjávarútvegsins;

Félag fiskikvenna í Saga-borg í Japan (Saga-shi Gyosei no Kai), sem vinnur að því að framleiða verðmæti úr þörungum en er aðskilið frá samvinnufélaginu á staðnum vegna þess að konur í almennum samvinnufélögum eru lágt settar á meðan konur í eigin samtökum og fyrirtækjum hafa náð að blómstra í eldisrekstri, framleiðslu og markaðssetningu á nýjum vörum; 

Bandalag fiskvinnslufólks á Barbadoseyjum, sem er einkum félag kvenna sem starfa í vinnslu á flugfiski, og hefur náð árangri í að tryggja félögum sínum fastan stað á markaðstorginu sem gerir allt starfið markvissara.

Hvað varðar rannsóknargeirann þá hefur deild fiskeldis og fiskveiða innan Samtaka sjávarútvegs í Asíu (Asian Fisheries Society) haldið alþjóðlega ráðstefnu annað hvert ár. Ráðstefnan í október 2018 var haldin undir yfirskriftinni Útvíkkun sjóndeildarhringa og þar voru kynntar nýjar og betri rannsóknaraðferðir sem valdefla konur, sýna fram á hvernig ný tækni getur aukið framleiðni kvenna – og má þar til dæmis nefna rörlaga net sem notuð eru við þörungaframleiðslu í Sansibar – auk þess að efla starfsemi kvennahópa.

Á síðustu árum hafa konur í faginu orðið enn sýnilegri í sjávarútvegstengdum fjölmiðlum, enda þótt enn sé það oft bundið við efnisþætti á borð við „konur í sjávarútvegi“ eða „kona mánaðarins“. Á vinnustöðum er mikilvægt að leggja áherslu á, gleðjast yfir og nýta allt það frumkvæði sem eykur sýnileika kvenna og dregur fram fjölbreytni og mikilvægi þess hlutverks sem þær gegna í greininni. Á árinu 2019 verða kynjaumræður í fyrsta sinn á dagskrá alþjóðlegra sjávarútvegssýninga (í Boston í mars 2019, og í Brussel í maí 2019).

Í nóvember 2018 efndi spænska landbúnaðar- og sjávarútvegsráðuneytið til alþjóðlegrar ráðstefnu fyrir og um konur í sjávarútvegi í þeim tilgangi að ná hagsmunaaðilum saman. Þangað komu 200 manns úr faginu. Hápunktur ráðstefnunnar var þegar nokkur ríki og samtök undirrituðu býsna afdráttarlaust skjal sem inniheldur ellefu ítarlegar ráðleggingar: Santiago de Compostella yfirlýsingin um jöfn tækifæri í sjávarútvegi og fiskeldi. Stefnt er að því að halda þennan viðburð annað hvort ár með það að markmiði að koma málefnum kynjanna á dagskrá hagsmunaaðila í sjávarútvegi. Eitt þeirra ríkja sem undirritaði yfirlýsinguna, Marokkó, hefur tilkynnt að önnur alþjóðaráðstefna kvenna í sjávarúvegi verði haldin þar árið 2020.

Nýverið hafa stór einkafyrirtæki lýst yfir stuðningi sínum við kynjajöfnuð og beina kastljósinu sérstaklega að tengslanetum kvenna. 

Í júní árið 2018 stofnaði Nueva Pescanova, sem er stærsta fiskveiði- og fiskvinnslufyrirtæki Evrópu, verkefnið Konur í sjávarútvegi (Women in Pescanova), til að auka sýnileika kvenna, bæta aðstæður á vinnustað, bæta verkferla þegar kemur að samþættingu og stöðuhækkunum, ásamt því að styðja við hæfileika kvenna. 

Samtök laxeldisfyrirtækja í Chile (SalmonChile) hafa sett saman vinnuhóp sem hefur það markmið að auka þátttöku kvenna í greininni, stefna að jöfnuði kynjanna og finna betri leiðir til að bæði greina og bregðast við kynjamun.

Konur í sjávarútvegi (Women in Fisheries) er hópur kvenna frá Írlandi, stofnaður árið 2018, í því skyni að veita konum úr öllum greinum sjávarútvegs bæði rödd og vettvang.

Er brugðist við?
Nú er sem sagt komin fram á sjónarsviðið ný tegund af orðræðu innan sjávarútvegsins, þar sem gefnar eru út yfirlýsingar í þágu kvenna og ný skjöl eru birt sem staðfesta skuldbindingu þar um. En eru hlutirnir í raun og veru að breytast eða á réttri leið til breytinga? Viðurkenning á mikilvægi kvenna þýðir ekki að fólk geri sér grein fyrir misvægi kynjanna.

Hvernig má tryggja að þær tillögur sem mælt er með komist til framkvæmda? Svo sem tillögur um aukið kynjajafnrétti sem settar eru fram án skuldbindingarkröfu í skjölum á borð við Voluntary Guidelines for Securing Sustainable Small-Scale Fisheries? Yfirlýsingar af þessu tagi hafa löngum verið lengi að ná fótfestu innan fiskveiðistefnu og í framkvæmdum. Á þremur Kyrrahafseyjum hefur til dæmis nýleg könnun á fiskveiðistjórnun í nýjum lögum um fiskveiðar, bæði á landsvísu og á alþjóðlegum hafsvæðum, sýnt fram á að málefni kynjanna hafa verið einna síðust til að komast þar á dagskrá. Á landsvísu hafa þau einungis verið tekin upp í 3 af 15 lagatextum, en ákvæði um sjálfbærni hafa verið tekin upp í öllum 15. Ástæður þessa er að finna í því hve hugtakið kynjajafnfrétti hefur verið mönnum framandi, merking þess óskýr og hugmyndir um mikilvægi þess sömuleiðis.

Þrálátur ójöfnuður
Valdadreifingin er afar ójöfn í nærri öllum löndum, launamunur kynjanna er enn mikill. Ein af orsökum hans er sú að sterkar staðalmyndir koma í veg fyrir að konur sæki um sum „karlastörf“, þar á meðal við veiðar, og jafnframt yfirmanna- og framkvæmdastjórastöður. Staðalmyndir kynjanna geta valdið því að konur festist í láglaunastörfum, og jafnvel þótt tekið sé tillit til atvinnustöðu þá fá konur oft lægri laun fyrir sama starf. Í mörgum fyrirtækjum er enn litið svo á að meðganga og móðurhlutverk séu fjárhagslega íþyngjandi og það dregur úr starfsöryggi kvenna.

Þegar opinberu fé er dreift inn í hagkerfi sjávarútvegsins án tillits til kyns þá glatast tækifæri til að takast á við ójafnvægi kynjanna og kynjamisrétti festist í sessi. Sem dæmi má nefna að fé úr ríkissjóðum og alþjóðlegum þróunarsjóðum fara frekar til veiða en í vinnslu og markaðsstörf. Í löndum þar sem mikið er um smábátaveiðar hefur nútímavæðing oft orðið til þess að konur hafa hrakist burt af gömlu markaðstorgunum því ný tegund markaðsstarfs dregur frekar til sín stærri fyrirtæki, þar sem karlar ráða gjarnan ferðinni. Á Indlandi er vitað til þess að konur, bæði í Múmbaí og Bihar, hafi þurft að stunda sölustörf sín á göngustígum og í vegköntum.

Tíminn er kominn
Við sem lengi höfum tekið þátt í starfi samtaka sem vinna að þessum málum fyllumst nú eldmóði vegna þess áhuga sem þeim er sýndur. Um leið er okkur ljóst að árangur er engan veginn öruggur.

Hér eru fjórar ráðleggingar. 

Í fyrsta lagi munu konur í greininni þurfa að standa fast á sínu og láta þarfir sínar í ljós með aðferðum sem virka í þeirra menningu. Þetta þýðir að þær þurfa að standa saman og ekki láta koma fram við sig sem annars flokks, og jafnframt eiga þær ekki að herma bara eftir körlum í starfsumhverfi sínu með því til dæmis að halda niðri öðrum konum. 

Í öðru lagi þarf fólk sem nú þegar vinnur saman að jafnrétti kynjanna í sjávarútvegi að efla skilning annarra í faginnu á því hvers vegna kynjajafnrétti skiptir þar máli. Þetta nægir ekki að gera einu sinni heldur þarf að grípa hvert tækifæri til að fá aðra í lið með sér. 

Í þriðja lagi þarf efla getu fagfólks, með þjálfun og fræðslu, til þess að móta nýja sýn á greinina þannig að jöfn staða kynjanna sé í hávegum höfð. Hvernig gæti það litið út og hvaða skref þarf að taka til að ná því fram? 

Loks ætti ekki að líta á það sem málefni kvenna einna að skapa framsækið umhverfi heldur ætti það verkefni að vera körlum bæði hvatning til að taka þátt og skylduverkefni þeirra.

Þetta er mikil áskorun en hreint ekki óframkvæmanleg. Nú þegar hefur sums staðar náðst árangur í því að bæta skilyrði kvenna í greininni okkar. Rétt eins og síðasta ár verður 2019 sögulegt ár í baráttu okkar. Við verðum orðnar miklu fleiri og öflugri, betur skipulagðar og tengdar. Við skorum eindregið á aðila í sjávarútvegi að ganga til liðs við þessa herferð sem varðar okkur öll þannig að næst þegar áttundi mars rennur upp þá getum við talað um grein sem mun frekar en áður stendur öllum opin í raun. 

Höfundar:
-Marie Christine Monfort er forseti og stofnandi Alþjóðasamtaka kvenna í sjávarútvegi (International Association for Women in the Seafood Industry, WSI).
-Natalia Briceno-Lagos er verkefnastjóri hjá WSI
-Meryl Williams er formaður deildar kynjamála í fiskeldi og fiskveiðum hjá Asian Fisheries Society
-Jayne Gallaghe er félagi í WISA (Women in Seafood Australasia)
-Leonie Noble er fyrrverandi forseti WISA
-Editrudith Lukanga er forseti AWFISHNET
-Tamara Espineira er samræmingarstjóri hjá She4sea

Greinin birtist í styttri útgáfu í Fiskifréttum 7. mars í tilefni af alþjóðadegi kvenna en er hér birt í fullri lengd.