sunnudagur, 17. janúar 2021
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

Eftirlit með veiðum uppsjávarstofna

Guðsteinn Bjarnason
19. maí 2020 kl. 10:00

Það er ekki síst makríllinn sem hefur verið bitbein á milli strandveiðiríkjanna. Mynd/HAR

Íslendingar fagna strandríkjasamkomulagi en undirritun bíður

Kristján Freyr Helgason, sérfræðingur í atvinnuvegaráðuneytinu, segir Íslendinga hafa tekið vel í að eiga samstarf við Evrópusambandið, Færeyjar og Noreg um eftirlit með veiðum á uppsjávartegundum í Norðaustur-Atlantshafi.

Nýverið gerðu Evrópusambandið, Noregur og Færeyjar samning um slíkt eftirlit og segja þau bæði Íslendingum og Grænlendingum standa til boða að taka þátt í samstarfinu.

Kristján Freyr segir þetta eiga sér nokkra forsögu.

„Frá 2009 eða 2010 hafa Evrópusambandið, Noregur og Færeyjar haft með sér samstarf um eftirlit,“ segir Kristján.

Þetta samkomulag hafi þó verið sett inn í viðauka við strandríkjasamning um makríl, en Íslendingar hafa ekki frekar en Grænlendingar og Rússar verið aðilar að þeim samningi.

Fyrir fáeinum árum hafi samningsaðilarnir bætt eftirliti með síld og kolmunna við makríleftirlitið.

„Það eru þessir aðilar sem hafa mótað landslagið en við höfum ekki verið í makrílsamkomulaginu þannig að við höfum aldrei skrifað undir.“

Eftirlitsmenn Fiskistofu hafi engu að síður tekið þátt í starfi sérfræðingahóps.

Svo segir Kristján að á síðasta strandríkjafundi um makríl, sem haldinn var í haust, hafi einhver snurða hlaupið á þráðinn þannig að Noregur ákvað að bjóða til fundar um þessi eftirlitsmál í janúar. Ísland og Grænland mættu til fundarins ásamt samningsaðilunum þremur, en þá lá fyrir tilbúinn samningur sem var aðeins til undirritunar, að sögn Kristjáns.

Margt til bóta

„Okkar viðbrögð voru jákvæð vegna þess að nú verður þetta ekki lengur undir makrílsamningnum og svo er margt í þessum drögum til bóta og margir hlutir sem við gerum þegar í dag. En það eru þarna atriði þar sem verklag á Íslandi er annað en hjá þeim. Þannig að við báðum um tíma, þurftum að athuga okkar gang en það var ekki þannig að við hefðum neitað að skrifa undir.“

Þetta samkomulag gildir til áramóta þannig að Kristján telur líklegt að allir aðilar utan þessa samkomulags mæti til leiks næsta haust þegar framhaldið verður skoðað.

Enn hefur strandríkjunum ekki tekist að komast að samkomulagi um skiptingu veiða úr uppsjávarstofnunum. Samningsleysið ásamt ofveiði úr stofnunum hefur valdið því að vottanir um sjálfbærar veiðar eru að falla úr gildi hver á fætur annarri.