þriðjudagur, 22. september 2020
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

Eftirlitið hefur lítið þróast

Guðsteinn Bjarnason
1. ágúst 2020 kl. 08:00

Löndun afla. MYND/Þorgeir Baldursson

Verkefnastjórn um bætt eftirlit með fiskveiðiauðlindinni telur nauðsynlegt að leita nýrra leiða við eftirlit og auka samvinnu við greinina.

Verði allar tillögur verkefnastjórnar um bætt eftirlit með fiskveiðiauðlindinni að veruleika, og þó ekki væri nema drjúgur hluti þeirra, er ljóst að miklar breytingar verða.

Í skýrslu sinn, sem Fiskifréttir hafa áður fjallað um, segir verkefnastjórnin óhjákvæmilegt að leita þurfi nýrra aðferða og tækni til að styrkja eftirlit með fiskveiðiauðlindinni, og vísar þar til „hagsmuna þjóðarbúsins og greinarinnar sjálfrar af því að rétt sé staðið að aflaskráningu, síaukinna krafna um sannreynanlegar upplýsingar, sem og þess hve hefðbundið eftirlit er dýrt eigi það að skila áreiðanlegum niðurstöðum.“

„Þá er til þess að líta að íslenskur sjávarútvegur státar af hátæknifyrirtækjum í fremstu röð, en eftirfitið hefur litið þróast siðustu áratugi,“ segir ennfremur í skýrslunni.

Samvinna við greinina

Verkefnastjórnin segir nokkra reynslu komna á notkun rafrænnar vöktunar um borð í fiskiskipum víða um heim. en „lykilatriði við útfærslu slíkra kerfa virðist vera samvinna yfirvalda og greinarinnar.“

Meðal annars beri að stefna að „að aukinni samvinnu Fiskistofu og greinarinnar um nýtingu þeirra upplýsinga sem safnað er í þeim hátæknikerfum sem íslensk sjávarútvegsfyrirtæki eru búin.“

Þá eigi Fiskistofa „að hefja tilraunir með notkun myndavélakerfa til eftirlits, hvort tveggja um borð í skipum og við löndun og vigtun á afla.“

Einnig eigi að huga að „fleiri tækninýjungum sem gætu sparað kostnað og styrkt eftirlit til lengdar, svo sem fjareftirlit með ómönnuðum loftförum eða drónum, hvort sem er við sjó- eða landeftirlit.“

Sérstök áhersla er lögð á að Fiskistofa fái skýrar lagaheimildir til rafrænnar fjarvöktunar til eftirlits, starfsemi Fiskistofu á sviði gagnasafna, gagnagreiningar og gervigreindar verði efid og Fiskistofa hefji í samvinnu við greinina tilraunir með notkun myndavélakerfa til eftirlits og aukna nýtingu upplýsinga sem safnað er í hátæknikerfum íslenskra sjávarútvegsfyrirtækja. Þá verði almennt hugað að notkun nýjustu tækni við eftirlit, s.s. ómannaðra loftfara eða annars konar tækni.