sunnudagur, 15. desember 2019
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

Eftirlitsáhrifin skoðuð

Guðsteinn Bjarnason
1. apríl 2019 kl. 07:00

Grásleppa

Fiskistofa hefur tekið upp á þeirri nýbreytni að birta reglulega upplýsingar um aflasamsetningu í veiðiferðum með og án eftirlitsmanns.

Fiskistofa er tekin að birta reglulega upplýsingar um aflasamsetningu í veiðiferðum með og án eftirlitsmanns. Af þessum tölum má sjá hvort aflasamsetningin er önnur þegar eftirlitsmaður er um borð en þegar enginn slíkur er með í för.

Birtar verða tölur um landaðan afla í fimm veiðiferðum sama báts, þ.e. einni ferð með eftirlismanni og tveimur næstu veiðiferðum á undan og eftir ferðinni með eftirlitsmanninum. Hafi báturinn ekki farið í tvær veiðiferðir á undan eftirlitsferðinni, þá eru birtar upplýsingar um fleiri ferðir á eftir sem því nemur.

Byrjað var á að birta tölur um magn og fjölda fisktegunda í öllum veiðiferðum grásleppubáta með viðveru eftirlitsmanna á tímabilinu 23. til 31. mars 2018. Alls eru það 13 bátar voru að grásleppuveiðum með eftirlitsmanni á þessu tímabili.

Í sumum tilvikum má sjá að aflasamsetningin er nokkuð önnur með eftirlitsmanni og án. Fiskistofa tekur þó fram í tilkynningu sinni að ástæður breytilegrar aflasamsetningar geti verið margvíslegar.

„Aðstæður í hafinu geta verið ólíkar hverju sinni og ætlun útgerðar og skipstjórnarmanna getur verið mismunandi frá einni veiðiferð til annarrar.“