sunnudagur, 13. júní 2021
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

Eftirlitsmyndavélakvóti

15. desember 2011 kl. 08:00

Þorskur

Þorskkvóti í Norðursjó og Skagerak hefur verið aukinn um 12% til þess að ívilna bátum með eftirlitsmyndavélar.

Samkvæmt nýgerðum samningi Evrópusambandsins og Noregs um veiðar í Norðursjó og Skagerak á næsta ári hefur þorskkvótinn verið aukinn um 12% á næsta ári gagngert til þess að ívilna þeim bátum sem hafa um borð eftirlitsmyndavélar til þess að fylgjast með brottkasti.

Danir voru þeir fyrstu sem gerðu tilraunir með eftirlitsmyndavélar í þessum tilgangi en þær eru settar upp ofan við þilfar bátanna og mynda þann fisk sem kemur á dekk hverju sinni. Þannig sést hvort eða hversu mikið af fiski fleygt er fyrir borð.

Danir, Svíar og Skotar eru áhugasamastir um að koma upp eftirliti með þessum hætti og samkvæmt upplýsingum frá stjórnvöldum í Danmörku hefur það leitt til minna brottkasts. Bátarnir sem tekið hafa þátt í þessum tilraunum nota fremur veiðarfæri sem velja réttu fiskstærðina og þeir hafa sig frekar á brott af smáfiskasvæðum.

Dönsku fiskimannasamtökin hafa samþykkt þessa eftirlitsaðferð með semingi en krefjast á móti aukinna kvóta því bátarnir með myndavélarnar skila á land öllum söluhæfum fiski.

Norðmenn hafa ekki áhuga á þessu eftirlitsfyrirkomulagi og vísa til þess að allt brottkast sé bannað samkvæmt norskum lögum. Eigi að síður njóta norskir fiskimenn góðs af því að þorskkvótinn hefur verið aukinn um 12% af þessum sökum.