þriðjudagur, 22. september 2020
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

Eftirsjá að góðu skipi

21. nóvember 2017 kl. 13:03

Þerney hefur farið sína síðustu veiðiferð á Íslandsmiðum.

Þerney RE 1 úr sinni síðustu veiðiferð á ÍslandsmiðumAflaskipið Þerney RE 1 kom úr sinni síðustu veiðiferð fyrir HB Granda um síðustu helgi. Skipið hefur verið selt til Suður-Afríku þar sem það verður gert út til veiða á hake. Ægir Franzson hefur verið skipstjóri á móti Kristni Gestssyni frá árinu 2005 og dregið margan fiskinn um borð.

 

Síðasta veiðiferðin var á Vestfjarðamiðum, á Halamiðum og þar í kring. Miðað við árstíma og veður gekk veiðiferðin vel. Aflinn var rúmlega 500 tonn, mest ufsi. Ægir segir eftirsjá að skipinu.

„Mér finnst slæmt að sjá á eftir Þerney úr íslenska skipaflotanum. Þetta er mjög gott skip og eitt af fáum með bræðslu. Á sínum tíma voru þessi skip smíðuð með öllum þeim útbúnaði sem fylgir nýsmíði núna, þ.e.a.s. með bræðslu og öðrum búnaði sem stuðlar að fullnýtingu á afturðum.“

Eitt af 40 skipum

Löndun stóð yfir þegar rætt var við Ægi. Fyrir hann og Ægisgengið, áhöfn Þerneyjar, eru þetta stór tímamót.

„Grandi keypti Þerney nýja 1994. Það voru smíðuð 40 samskonar skip í Kristiansund í Norður-Noregi fyrir Rússa. Þeir leystu skipin ekki út. Norskar útgerðir keyptu mörg þessara skipa og þau dreifðust reyndar víða um heiminn. Þerney rataði hins vegar hingað 1994,“ segir Ægir.

Ægir og Kristinn tóku við Þerney 2005 og hafa stýrt fleyinu með góðum árangri allt fram til þessa. Áður höfðu þeir verið á Snorra Sturlusyni saman.

Nú hefur Þerney verið seld til Suður-Afríku og segir Ægi að útgerðin hafi einmitt viljað svona skip.

„Þeir hafa verið í samkeppni við Rússana sem eru á fullu núna að kaupa þessi skip aftur. Þeir hafa keypt mörg þessara skipa af norskum útgerðum og gera út á Barentshafið. Suður-Afríkumenn ætla að fiska hake en þar eru stundaðar umfangsmiklar veiðar á þeirri tegund.“

Ægir hefur verið í fimmtíu ár til sjós og segir það kannski tímabært að fara að koma sér í landi. „Við höfum verið með sömu áhöfnina árum saman. Vinahópurinn tvístrast eitthvað en eftir standa góðar minningar.“