föstudagur, 27. nóvember 2020
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

Ein lausn að leggja skipunum

Guðjón Guðmundsson
3. apríl 2020 kl. 14:00

Kristján Hjaltason, sölustjóri hjá rússneska sjávarútvegsfyrirtækinu Norebo. Mynd/Sjávarútvegsráðstefnan

Kristján Hjaltason, sölustjóri Norebo, segir ákveðna hluta markaðarins lokaða

Sala á ferskum fiski úr Norður-Atlantshafinu hefur stöðvast á öllum stærstu mörkuðum, þ.e. Bretlandi, meginlandi Evrópu og Bandaríkjunum. Kristján Hjaltason, sölustjóri hjá rússneska sjávarútvegsfyrirtækinu Norebo, kveðst ekki sjá að annað sé í stöðunni hjá ferskfiskframleiðendum en auka framleiðslu á frystum og söltuðum afurðum með þeim áhrifum sem það getur haft á framboðið eða leggja skipunum tímabundið.

Kristján segir stöðuna þá að ákveðnir hlutir markaðarins eru lokaðir, þ.e.a.s. veitingastaðir og mötuneyti. Ferskfiskborð í flestum verslunum eru auk þess lokuð. Þetta eigi við um Bretland, Bandaríkin og meginland Evrópu, eða alla helstu markaði fyrir tegundir úr Norður-Atlantshafinu. Vissir hlutir markaðanna eru ennþá á í lagi, til dæmis fyrir síld sem fer til niðursuðu og í smásölu.

Viðbrögð við breyttri stöðu

„Við höfum séð undanfarna viku að ferskfiskútflutningur frá Íslandi gengur ekki vel. Sömu sögu er að segja af hluta frysts fisks á meðan aðrir markaðir eru opnir. Þetta er stóra myndin sem knýr útgerðir og framleiðendur til að bregðast við breyttri stöðu. Þar skiptir máli hver framleiðslan er og á hvaða geirum markaðarins þeir eru, þ.e.a.s. í smásölu, veitingahúsamarkaðnum eða ferskum flökum. Þeir sem eru dreifðir á fleiri en einn geira eru betur settir. Fyrir alla sem eru eingöngu í ferskum fiski er ástandið auðvitað mjög erfitt,“ segir Kristján.

Hann segir Norebo í þokkalegri stöðu í þessum óvenjulegu aðstæðum. Fyrirtækið er á mörgum og ólíkum mörkuðum, jafnt í smásölu, veitingahúsasölu og heimsendingarmarkaðnum. Fyrirtækið vinnur með sínum viðskiptavinum, sem margir hverjir eru í erfiðri stöðu, og sækir fram þar sem sóknarfæri eru. Lagt er mat á viðbrögð við ástandinu í hverri viku. Langstærsti hluti afurða Norebo er frystur fiskur og fyrirtækið er vant því að halda birgðir. Lokun fish&chips veitingastaða í Bretlandi, sem eru um það bil 10.000 talsins, er slæmt fyrir Norebo sem er einn stærsti framleiðandi sjófrystra þorskflaka í heimi. Fish&chips staðirnir opni vonandi aftur eftir nokkrar vikur, því Bretar geta ekki verið án þeirra of lengi.

Hætta á offramboði

Hann segir ljóst að ferskfiskframleiðendur verða að halda að sér höndum. Sumir hafa farið út í það að frysta en frystigetan setur þar framleiðendum takmörk.

„Þetta er samt ekki einfalt. Allir fiskmarkaðir hafa sitt jafnvægi. Ef frystingin rýkur upp getur myndast offramboð. Kosturinn við frystinguna er engu að síður sá að með henni er hægt að geyma vöruna í töluverðan tíma. En aukin frysting getur valdið ójafnvægi í verðum. Þorskverð til framleiðenda hafa verið há mörg undanfarin ár en hættan er sú að verð lækki fari margir framleiðendur of hratt inn á markað þar sem þeir hafa ekki verið áður.“

Kristján segir aðra lausn að leggja skipunum tímabundið. Hugsanlega gæti það verið skynsamlegra en að leggja í miklar fjárfestingar til að skipta yfir í frystingu, ekki síst þegar haft er í huga að hugsanlega verði ástandið á mörkuðunum aftur orðið eðlilegt eftir þrjá til fjóra mánuði.

„Það er spurning hversu samfélögin í Bandaríkjunum og Evrópu halda lengi út þessa lokun. Hér í Þýskalandi á að taka stöðuna aftur 20. apríl og athuga hvort tekist hafi að ná stjórn á útbreiðslu faraldursins. Sé raunin sú sé ég fyrir mér sviðsmyndir þar sem farið verði að huga að opnun veitingastaða og leyfa meiri samskipti meðal fólks. Sé sviðsmyndin sú að nokkurn veginn eðlilegt ástand komist ekki á fyrr en í júní mætti ætla að hagkvæmara væri fyrir suma framleiðendur að leggja skipum núna og vera tilbúna í slaginn þegar opnar.“

Kristján segir að menn verði að hafa það í huga að 2-3 mánuðir séu í sjálfu sér ekki langur tími. Mikilvægt sé að hafa það hugfast að ástandið mun breytast til batnaðar og þá ríði á að menn séu tilbúnir undir þann tíma.