sunnudagur, 19. september 2021
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

Ein stærsta sandhverfa sem hér hefur veiðst

15. júní 2021 kl. 14:00

Skipverjar á Vestmannaey VE með sandhverfuna stóru sem veiddist við Ingólfshöfða. MYND/Birgir Þór Sverrisson

Vestmannaey VE landaði fullfermi í Vestmannaeyjum í morgun. Í aflanum var 85 sentimetra löng sandhverfa

„Við veiddum þennan fisk við Ingólfshöfða,“ segir Birgir Þór Sverrisson, skipstjóri á Vestmannaey VE. Þegar skipið kom til löndunar í Vestmannaeyjum í morgun með fullfermi var í aflanum sandhverfa sem mun vera ein hin stærsta sem veiðst hefur hér við land. Síldarvinnslan hf. greinir frá þessu á heimasíðu fyrirtækisins.

Birgi Þór segir að fulltrúar frá Hafró hafi komið um borð strax og skipið kom í land til að mæla og vigta fiskinn. Þeir staðfestu að þetta sé ein stærsta sanhverfa sem veiðst hefur við Ísland svo vitað sé: 85 sentimetra löng, 69 sentimetrar á breidd og 13 kíló að þyngd.

„Mér skilst að einungis ein sandhverfa af svipaðri stærð hafi áður veiðst við landið,“ er haft eftir honum í frásögn Síldarvinnslunnar.

Hann segist telja að allar stærstu sandhverfur sem veiðst hafa við landið hafi einmitt veiðst við Ingólfshöfða.

„Sandhverfa er sjaldgæfur fiskur og stórar sandhverfur afar fágætar. Þessi fiskur fæst helst í fótreipi á grunnslóð. Við höfum stundum fengið 3-4 sandhverfur á ári en sum árin fæst engin og jafnvel sjáum við ekki þennan fisk í afla árum saman,“ segir hann.