mánudagur, 21. júní 2021
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

Eingöngu smásíld í Hvammsfirði

10. janúar 2014 kl. 15:40

Síld

Ennþá er töluvert stór hluti síldarstofnsins ófundinn.

„Hér í Hvammsfirði er svolítill flekkur af síld en þetta er eingöngu smásíld, eins árs gömul,“ sagði Páll Reynisson leiðangursstjóri á Dröfn RE í samtali við Fiskifréttir í dag. Fjörðurinn var kannaður í gær og aftur í dag. 

Þegar fréttist af síld í Hvammsfirði um jólin vöknuðu grunsemdir um að þar kynni að vera komið eitthvað af þeirri fullorðnu síld sem áætlað er að sé í stofninum en ekki hefur fundist fram að þessu. Það reynist sem sagt ekki vera. 

Sú síld sem vitað er um í Breiðafirði er öll í Kolgrafafirði. Dröfnin kannaði önnur svæði þar sem síld hefur verið veidd, svo sem Hofstaðavog og Kiðeyjarsund, en fann ekkert. Þrjú stór síldveiðiskip könnuðu miðin í Breiðafirði líka um síðustu helgi en fengu engan afla og héldu því til loðnuveiða. 

Netaveiðimenn á smábátum telja að bæst hafi við síldina í Kolgrafafirði frá því um jól og mun Hafrannsóknastofnun freisa þess á morgun að mæla magn síldarinnar á ný í firðinum en mælingin í desember gaf 70.000 tonn. 

Staðan er því sú að hluti síldarstofnsins er í Kolgrafafirði innan brúar, þar sem stærri skip ná ekki til hennar.  Annar hluti er fyrir sunnan land en ennþá er töluvert stór hluti stofnsins ófundinn. Hversu stór sá hluti er vilja fiskifræðingar ekki giska á að svo stöddu.