þriðjudagur, 18. júní 2019
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

Einstakt afrek á svörtum sandi

Guðsteinn Bjarnason
5. október 2018 kl. 14:30

Friedrich Albert, þýska skipið sem strandaði á Skeiðarársandi í janúar árið 1903. MYND/AÐSEND

Einar Magnús Magnússon, sem m.a. leikstýrði þáttunum Aðför að lögum um Geirfinns- og Guðmundarmálið, vinnur nú að ritun kvikmyndahandrits um strand þýska fiskiskipsins Friedrichs Albert á Skeiðarársandi í janúarmánuði árið 1903.

Áhöfnin var þá skyndilega stödd á svörtum sandinum um hávetur og vissi ekkert hvar björgun var að finna. Skipverjarnir ráfuðu um sandana í ellefu daga, kaldir og hraktir og nánast matarlausir. Þrír þeirra fórust.

Á endanum náðu níu manns úr áhöfninni að komast heim að afskekktum sveitabæ, Orrustustöðum á Brunasandi, þar sem fátækur bóndi bjó ásamt eiginkonu og dóttur og veitti þeim skjól.

Þar var fyrstu dagana hlúð að þeim og síðan framkvæmdi íslenskur læknir, sem sóttur hafði verið langa leið, aflimanir vegna hættulegra kalsára á fimm mannanna við afar frumstæðar aðstæður.

„Þegar farið er ofan í allar heimildir þessarar sögu þá kemur í ljós að þetta er án efa eitt merkilegasta afrek sem nokkru sinni hefur verið unnið,“ segir Einar Magnús, sem hefur meðal annars aflað sér heimilda í Þýskalandi og rætt við afkomendur bæði skipstjóra og stýrimanns skipsins.

Hann vonast til þess að leikin kvikmynd eftir þessari sögu verði að veruleika innan fárra ára. Þetta sé tvímælalaust efniviður í stórmynd. Í lok síðasta árs veitti Kvikmyndasjóður handritastyrk til verksins.

„Það er ekki bara að þetta sé vitnisburður um mikil afrek og þrek manna heldur er þetta einnig móralskt sterk saga. Í henni eru svo  mikilvæg skilaboð um grunn gildi lífsins og mannúðina sem okkur á öllum að vera gefin. Það er ekki síður afrek hvernig skipstjóranum tókst að halda utan um hópinn, yfirstíga nánast óyfirstíganlegar hindranir og efla mönnunum þrótt itl að halda lífi.“

Nánar má fræðast um strandið og áform Einars Magnúsar á vefsíðunni svartursandur.is