

Bárður SH-81 – stærsti trefjaplastsbátur sem smíðaður hefur verið fyrir íslenska útgerð - kom til landsins á laugardaginn og lagðist að bryggju í Hafnarfirði. Báturinn var smíðaður af skipasmíðastöðinni Bredgaard Boats í Rødbyhavn í Danmörku.
Bárður SH-81 er í eigu útgerðarmannsins Péturs Péturssonar á Arnarstapa. Hann er 26,9 metra langur, sjö metra breiður og með 2,5 m. djúpristu.
„Bárður SH-81 er stærsti vertíðarbátur sem smíðaður hefur verið úr trefjaplasti fyrir íslenska útgerð. Bárður SH er einn fullkomnasti bátur af þessari stærð sem kemur hingað til lands og ég er ekki í vafa um að hann muni reynast vel í íslenskum aðstæðum,“ segir Hrafn Sigurðsson, einn af eigendum Aflhluta en fyrirtækið er umboðsaðili fyrir Bredgaard Boats.
Aðalvélin í bátnum er frá MAN í Þýskalandi og er 900 hestöfl. Snurvoðaspil, netatromma og stjórnbúnaðurinn fyrir snuðvoðina er með því fullkomnasta sem þekkist, og verður öll stjórnun á voðinni tölvustýrð með snertiskjá. Búnaðurinn kemur frá AS-Scan í Danmörku. Allt vökvakerfið í bátinn er einnig lagt af sérfræðingum AS-Scan. Vökvadælur og lokar koma frá Landvélum.
Niðurfærslugírinn í bátnum er TWIN DISC MGX, skrúfubúnaðurinn kemur frá Teignbridge, tvær ljósavélar frá Zenoro í Hollandi, hliðarskrúfurnar bæði framan og aftan frá ABT Track í Bandaríkjunum. Hliðarskrúfurnar hafa reynst mjög vel fyrir smærri gerð af bátum að sögn Hrafns.
Pétur Pétursson, útgerðarmaður og eigandi bátsins segist mjög ánægður með hann. „Allt sem við höfum prófað í siglingunni frá Danmörku hefur reynst vel. Við höfum auðvitað ekki lent í neinum brælum ennþá. Það verður nógur tími til að prófa það seinna meir,“ segir Pétur.
„Hér í Hafnarfjarðarhöfn verður gengið frá ýmsum hlutum í bátnum í sambandi við búnaðinn, til dæmis verður sett í hann netaspil og fleira. Ég á von á að báturinn verði í Hafnarfirði í um það bil tvær vikur. Stefnan er að hann verði kominn heim í Ólafsvík um miðjan desember.“