föstudagur, 18. júní 2021
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

Ekkert bólar enn á meiri loðnu

31. janúar 2019 kl. 16:30

Loðna (Mynd: Þorbjörn Víglundsson).

Leitarskipin í vari vegna veðurs - halda til leitar aftur um leið og það er mögulegt.

Loðnuleit sem nú stendur yfir hefur enn ekki skilað neinni viðbót við það magn sem fundist hefur í fyrri leiðöngrum.

Hafrannsóknaskipið Árni Friðriksson og uppsjávarskipið Polar Amaroq héldu af stað í leiðangur í síðustu viku og hafa nú síðustu dagana verið fyrir norðan land. Veður hamlar þó leitinni eins og er, samkvæmt heimildum Fiskifrétta; bræla var í gær og þurftu skipin frá að hverfa, Árni Friðriksson inn í Eyjafjörð og Polar Amaroq inn á Skjálfanda.

Bræluspá er áfram næstu daga en leitinni verður haldið áfram strax og betur viðrar.

Í síðasta leiðangri, dagana 4. til 15. janúar, fundust aðeins 214 þúsund tonn af kynþroska loðnu, sem dugar ekki til þess að mælt verði með loðnuveiðum. Ekkert af loðnunni fannst fyrir austan Kolbeinseyjarhrygg, og því ekkert gengið austur fyrir eins og búast hefði mátt við á þessum árstíma.

Í september síðastliðnum mældust einungis 238 þúsund tonn af fullorðinni loðnu og þann 10. desember hélt veiðiskipið Heimaey einnig í leiðangur til að kanna útbreiðslu loðnunnar og fannst þá svipað magn og í september.

Í ráðgjöf Hafrannsóknastofnunar 17. október treysti hún sér ekki til að mæla með neinum loðnuveiðum fiskveiðiárið 2018/2019, en sagði að ráðgjöfin yrði endurmetin nú í ársbyrjun byggt á nýjum upplýsingum úr frekari loðnuleit.