sunnudagur, 13. júní 2021
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

Ekki bætt við aflamark í aflareglu þorsks

30. júní 2018 kl. 07:00

Guðmundur Þórðarson, sviðsstjóri botnfisksviðs Hafrannsóknastofnunar.

Guðmundur Þórðarson hjá Hafró svarar Erni Pálssyni hjá Landssambandi smábátaeigend


Í viðtali við Örn Pálsson framkvæmdastjóra Landsambands smábátaeigenda (LS) í Fiskifréttum þann 21. júní bendir hann á að veiðihlutfall þorsks hafi undanfarin ár verið lægra en þau 20% sem stefnt er að í aflareglu.  LS lagði því til við stjórnvöld að aflamark komandi fiskveiðiárs yrði aukið sem nemur muninum af aflamarki síðasta árs og 20% af viðmiðunarstofni ársins 2017 eða um 26,4 þús. tonn.

Aflamark þorsks var fyrst ákvarðað samkvæmt aflareglu stjórnvalda fiskveiðiárið 1995/1996.  Aðdragandinn var langur en kom ekki til af góðu, þorskstofninn hafði minnkað hratt frá lokum áttunda áratugsins, nýliðun hafði verið mun minni en á tímabilinu milli 1955 og 1985 og veiðihlutfall hærra en það sem talið var að stofninn gæti staðið undir.  Á þessum tíma var sjávarútvegur þjóðhagslega mun mikilvægari en nú er svo að skerðingar á þorskafla höfðu mikil áhrif á lífskjör í landinu.  Ljóst að eitthvað varð að gera og í tillögum nefndar sem sjávarútvegsráðherra skipaði árið 1992 var lagt til að veiðum úr þorskstofninum skyldi stjórnað með aflareglu.

Ekki gert ráð fyrir að bætt sé við aflamark í aflareglu

Í skýrslu nefndarinnar var litið til margra þátta varðandi nýtingu þorskstofnsins eins og vaxtar og nýliðunar þorsks, fjölstofnatengsla við loðnu og rækju sem og hagkvæmni og stöðuleika í veiðum.  Til að draga úr breytingum í aflamarki milli ára var lagt til að aflamark síðasta árs vægi til helmings á móti stærð veiðistofns yfirstandandi árs margfaldað með settu veiðihlutfalli.  Þetta er einfaldast að útskýra með dæmi.  Ef aflamark síðasta árs er 200 þús. tonn og viðmiðunarstofn í ár er áætlaður 1200 þús. tonn og veiðhlutfall er sett sem 20% þá verður aflamark næsta árs: (200+1200*0,2)/2=220 þús. tonn.  Þetta þýðir að áætlað veiðihlutfall verður aðeins lægra en 20% eða 18,3%.  Ef hinsvegar viðmiðunarstofn minnkar milli ára og væri t.d. 800 þús tonn í ár þá myndi aflamark næsta árs vera 180 þús. tonn og áætlað veiðihlutfall verða 22,5%.

Það að taka tillit til aflamarks síðasta árs við ákvörðun aflamarks þessa árs líkt og gert er í aflareglu þorsks hefur ýmsa kosti.  Það dregur úr sveiflum í aflamarki þannig að ef stofn minnkar mikið á milli ára þá dregur ekki hlutfallslega jafn mikið úr afla.  Ef stærð stofns er ofmetinn þá verða áhrif þess á aflamark ekki eins skaðleg og annars yrði. Þetta var megin hugsunin á bakvið að setja inn sveiflujöfnun í aflaregluna á sínum tíma.    Almennt sveiflast fiskistofnar upp og niður í stærð vegna mismunandi nýliðunar milli ára.  Ef aflareglu er fylgt mun áætlað veiðihlutfall því að jafnaði verða nálægt 20% þó að það geti verið lægra eða hærra en 20% í einstökum árum.

Í aflareglu þorsks er ekki gert ráð fyrir því að bætt sé við aflamark líkt og LS leggur til, ekki frekar en að aflamark sé skert niður að 20% ef þorskstofninn minnkar milli ára. Hermireikningar hafa auk þess bent til þess að ávinningur af slíkri aukningu í heildarafla myndi vera lítill sem enginn til lengri tíma litið og myndi leiða til aukins sóknarkostnaðar og meiri breytileika í aflabrögðum. Þorskstofninn við Ísland hefur stækkað mikið á undanförnum árum og hefur frá árinu 2007 næstum tvöfaldast í stærð og afli samkvæmt aflareglu hefur aukist úr 130 þús tonnum í rúm 264 þús. tonn.  Af þessum sökum hefur veiðihlutfall undanfarinna ára verið undir 20% líkt og LS hefur bent á en það er einmitt afleiðing af því hvernig aflareglan er hugsuð.

Aflareglur eru endurskoðar reglulega til að meta árangur þeirra og þá skal einnig athuga hvort aðrar útfærslur henti betur. Slíkt þarfnast mikillar rýni á öllum forsendum sem og samráðs stjórnvalda og hagsmunaaðila um sameiginlega sýn varðandi nýtingu á auðlindinni.  Aflaregla þorsks var síðast rýnd árið 2015 og í kjölfarið ákváðu stjórnvöld að framlengja hana til 2020 ekki síst í ljósi þess að hún virtist skila þeim árangri sem að var stefnt í uppahafi.