laugardagur, 19. júní 2021
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

Ekki eins og að setja niður kartöflur

Guðsteinn Bjarnason
29. júlí 2018 kl. 13:00

Geir Ívarsson hugar að ostrunum úr Skjálfanda. MYND/VÍKURSKEL

Ostrurækt við Íslandsstrendur er vandmeðfarin en skilar bragðgóðri afurð. Fyrstu íslensku ostrurnar eru væntanlegar á markað innan fárra vikna.

„Þú borðar ekki ostru erlendis eftir að vera búinn að smakka þetta, það er svo gríðarlegur munur á bragðinu,“ segir Kristján Phillips hjá Víkurskel á Húsavík, sem undanfarin ár hefur gert tilraunir með ostrurækt við Skjálfandaflóa ásamt félaga sínum, Geir Ívarssyni.

Fyrstu ostrurnar eru að fara á markað í byrjun næsta mánaðar, eins og fram hefur komið í fréttum. Kristján segir ostruræktina hér við land vandmeðfarna og tímafreka.

„Það þarf að taka þetta inn hálfsmánaðarlega yfir sumartímann, hverja einustu skel. Taka hana úr búrinu svo sjóflæðið komist í gegn. Svo þarf að flokka rétt í búrin aftur. Þetta er gríðarleg vinna. Þetta er ekki eins og að setja niður kartöflur.“

Ostrurnar eru ræktaðar í Saltvík, rétt sunnan við Húsavík. Þar eru þær í búrum sem fest eru í línur sem varna því að þær fari niður á botn.

„Ostran er mjög viðkvæm fyrir því að fara á botninn, drepst þá bara einhverra hluta vegna.“

Ostruræktin þeirra er annars í engu frábrugðin ostrurækt annars staðar í heiminum.

„Það er enginn munur þar á. Þetta gerist bara hægar hér.“

Sjórinn við strendur Íslands segir hann engar kjöraðstæður fyrir ostruna. Það taki nokkur ár, að minnsta kosti þrjú til fjögur og kannski lengur, þangað til hún nái æskilegri stærð. Annars staðar í heiminum þar sem ostrurækt er stunduð í einhverjum mæli er ostran vel innan við ár að ná fullri stærð.

Engin glóra í þessu
„Það er engin glóra í þessu,“ segir hann, en hefur samt fullan hug á að auka framleiðsluna enda segir hann ostruna af einhverjum ástæðum verða bragðbetri hér við land en annars staðar.

Ætli þeir sér að stækka verður að taka ákvörðun um það nokkur ár fram í tímann, því ostran nær sér ekki á strik fyrr en eftir þrjú ár eða svo. Þegar þar að kemur þarf fleira starfsfólk.

„Við erum bara tveir núna að sinna þessu í fullu starfi og náum alveg að sinna þessu eins og er, alla vega í sumar. En við náum því ekki næsta sumar.“

Þetta er í annað sinn sem þeir gera tilraun til að rækta ostrur. Fyrri tilraunin fór út um þúfur þegar brjálað veður gerði með þeim afleiðingum að þeir misstu allt saman.

„Við áttum skel erlendis þegar þetta var, en vorum að spá í það hvort við ættum að halda áfram eða hætta þessu. Þá hringdi Hrefna Sætran í okkur og peppaði okkur upp í það að halda áfram. Hún bauðst til að koma inn í þetta með fjárfesta og aðstoða okkar. Annars hefði þetta aldrei gengið upp.“

Ostran frá Víkurskel verður í boði til að byrja með á veitingastöðum Hrefnu, Grillmarkaðnum, Fiskmarkaðnum og Skelfiskmarkaðnum.