mánudagur, 21. júní 2021
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

Ekki endanleg ráðgjöf fyrir veiðar á grásleppu

28. febrúar 2013 kl. 09:00

Grásleppa

Að öllu óbreyttu verður aflamark í grásleppu aukið eftir vorleiðangur í mars

Veiðiráðgjöf Hafrannsóknastofnunar á grásleppu er aðeins upphafsráðgjöf. Endanleg ráðgjöf kemur í lok mars. Stofnvísitalan 2012 hefur 30% vægi í ráðgjöfinni en vísitalan 2013 hefur 70% vægi.
Þessar upplýsingar koma fram í viðtali í nýjustu Fiskifréttum við Jacob Kasper, grálseppusérfræðing Hafrannsóknastofnunar. Hrognkelsi eru talin frekar skammlíf tegund og hrygna yfirleitt aðeins einu sinni. Jacob sagði að þetta undirstrikaði mikilvægi þess að veiðarnar tækju mið af stofnvísitölu sama árs og veiðin færi fram, frekar en vísitölu ársins á undan. Því væri nauðsynlegt að tvískipta ráðgjöfinni.
Hafrannsóknastofnun lagði til síðastliðið vor að upphafsaflamark grásleppu á vertíðinni 2013 yrði ekki hærra en sem næmi um 1.700 tonnum sem samsvarar um 3.500 tunnum af söltuðum hrognum. Þessi ráðgjöf er sem sagt byggð á grásleppuvísitölu úr vorralli 2012. Óvíst er hve miklu verður bætt við eftir vorrallið í ár sem fer fram í mars. Ef menn gefa sér það hins vegar að vísitalan verði sú sama vorið 2013 og hún var vorið 2012 ætti það að skila um 4 þúsund tonnum til viðbótar. Heildarráðgjöfin gæti þá verið 5.700 tonn eða sem samsvaraði um 11.700 tunnum af hrognum. Menn vita að sjálfsögðu ekki hvort vísitalan í ár verður hærri eða lægri en hún mældist fyrir ári síðan. Hins vegar er þetta dæmi sett fram til að skýra hvernig reiknireglan um grásleppuráðgjöfina virkar.
Sjá nánar í nýjustu Fiskifréttum.