mánudagur, 9. desember 2019
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

Ekki flókið að þrepaskipta veiðigjaldinu

Guðsteinn Bjarnason
26. janúar 2018 kl. 12:00

Smábátar í höfn. MYND/GE

„Það er náttúrlega hægt að gera allt saman flókið,“ segir Axel Helgason, formaður Landssambands smábátaeigenda. Hann segir þó vel hægt að taka tillit til smábátaútgerðar við úthlutun veiðigjalds.

Axel Helgason, formaður Landssambands smábátaeigenda, segir það ekki þurfa að vera flókið að skilgreina ólíka flokka útgerðar þannig að hægt verði að þrepaskipta veiðigjaldinu.

„Það er náttúrlega hægt að gera allt saman flókið,“ segir hann. Við úthlutun veiðigjalds sé þó hægur vandi að taka tillit til smábátaútgerðar, sem býr við allt aðrar aðstæður en stórútgerðin.

„Við höfum lagt til þrepaskiptingu út frá magni.“

Þær tillögur miðast við að fyrir samanlagðan afla skips í þorskígildum upp að 50 tonnum, greiðist fjórðungur af fullu veiðigjaldi. Síðan hækki gjaldhlutfallið í þrepum upp að 2.000 þorskígildum, en af veiðum umfram tvö þúsund tonn greiðist sérstakt álag á veiðigjaldið.

„Þannig að veiðigjaldið skili í rauninni sömu krónutölu í ríkiskassann,“ segir Axel. „Því afkoma þeirra stóru á að fara á þá stóru. En ef menn vilja taka þá umræðu að við þurfum á sérmeðferð að halda vegna verri rektrar, eins og sumir tala um, þá þurfum við að fá allsherjar úttekt á áhrifum smábátaútgerðar á samfélagið.“

Byggðasjónarmið
„Burtséð frá afkomu okkar þá er gott fyrir samfélagið að hafa smábátaútgerð. Það er engin spurning. Jafnvel þótt arðgreiðslur til hluthafa séu ekki miklar í smábátaútgerð. Og meðan veiðigjöldin eru afkomutengd ber að leggja þau þannig á að afkoma þeirra stóru sé metin sérstaklega og lagt á þá í samræmi við það.“

Hann segir það vera ljóst að leggist smábátaútgerð af þá verði engin útgerð lengur í mörgum minni byggðarlögum landsins. Þjóðin vilji að smábátaútgerð dafni, enda sé hún mikilvæg fyrir samfélagið.

„Hverju öðru erum við að kosta til með byggðarsjónarmið í huga? Til dæmis með því að styrkja landbúnaðinn og halda byggð í ólíkum landshlutum?“

Forskot stórútgerðarinnar
Hann neitar því ekki að stærðarhagkvæmni sé vissulega staðreynd í sjávarútvegi. Smábátaútgerðin sé að sumu leyti óhagkvæm, ekki síst línuveiðarnar. Beita og beitningakostnaður sé hár og reksturinn oft á tíðum erfiður.

„En þetta er bara allt annað atvinnuform. Og í hverju felst gróði stórútgerðarinnar?“ spyr Axel og bendir á að forskot hennar felst í ýmsu öðru en stærðinni einni.

„Felst gróði þeirra í því að þeir eru með kjarasamning sem er þannig að sjómenn greiða 30 prósent í olíukostnað, á sama tíma og útgerðin ber sig á brjóst fyrir að hafa minnkað olíunotkun um 43%? Felst hann í því að hún landar stærstum hluta afla til vinnslu á verði sem er 20 til 25 prósent lægra en verðið á fiskmörkuðum? Eða felst hann í því að sjómenn borga svokallað nýsmíðaálag, og taka þá þátt í kostnaði við ný skip. Þessir liðir eiga ekki víð hjá smábátunum.“

Launakostnaður
Hann segir smábáta landa 75-80 prósentum af afla sínum á fiskmarkaði, þar sem verðið er allt að 25 prósent hærra en annars.

„Við borgum launin okkar samkvæmt því, þannig að staðgreiðsla, tryggingargjald og útsvar er af hærri upphæð að meðaltali heldur en hjá stórútgerðinni. Og þá er ég að tala um þá sem eru í þessu á heilsársgrunni. Við getum ekki tekið strandveiðibátana inn í þetta, því þeir eru með hlutfallslega mun hærri fasta kostnaðarliði, ýmsan árlegan kostnað og tryggingar.“

Hann segir hlutfall launakostnaðar hjá smábátum með aflahlutdeild á bilinu 150- 250 tonnum á ári, vera á bilinu 42 til 46 prósent.

„Ég hef heyrt frá útgerðinni stórútgerðinni að þeir tala um að launakostnaður sé 40 prósent. Hjá HB Granda er þetta 32 prósent af heildinni, en þar er að vísu vinnslan inni í líka.“

Nánast engir vextir
Stórútgerðin hefur auk þess ótvírætt forskot þegar kemur að kaupum á nýjum skipum.

„Mér er sagt að öll þessi skip sem nú streyma til landsins séu að koma vegna þess að eldri skipin eru komin á núll í afskriftum. Það er ekki hægt að afskrifa þau lengur árlega. Mörg fyrirtækin eiga fyrir því að staðgreiða þau, en gera það ekki heldur taka fullt lán á þessi skip í evrum á núll til 0,5 prósent vöxtum. Bara út frá þessu hafa þessi fyrirtæki forskot til að kaupa aflaheimildir. Ef áhugasamur ungur maður ætlar að fara í smábátaútgerð í dag og fer í banka, þá fær hann ekki fyrirgreiðslu nema hann ætli sér að fara í útgerð með 200 tonn eða yfir. Bankinn er búinn að meta það að hagkvæmnismörkin liggi þar, skilst mér. Þessi maður fær lánakjör á bilinu 4,2 til sjö prósent. Hvað þarf hann að borga árlega af láni fyrir aflaheimildum áður en hann fer að borga sér laun? Þetta er algjört lykilatriði.“

Hrun í smábátaútgerð
Margt hefur orðið til þess að þrengja að smábátaútgerð hér á landi síðustu áratugina, sem meðal annars hefur orðið til þess að smábátum innan kvótakerfisins hefur fækkað mikið.

Þannig voru hér árið 1990, þegar stjórnvöld ákváðu að veiðar smábáta yrðu í sama aflamarkskerfi og stórútgerðin, alls gerðir út 1.043 smábátar í aflamarkskerfinu. Árið 2017, tæpum þremur áratugum síðar, hafði smábátum innan aflamarkskerfisins fækkað í 62.

Landsamband smábátaeigenda hefur ítrekað fjallað um þessa þróun, meðal annars í tímariti sínu, Brimfaxa. Í síðasta hefti þess, sem kom út í desember síðastliðnum, var athyglisverð framsetning á þessu þar sem mannanöfn voru sett í staðin fyrir bátanöfn, og má sjá útkomuna hér á opnunni.

„Svo gerðist það núna allra síðustu ár að stærðarmörkin voru stækkuð,“ segir Axel. Stjórnvöld ákváðu sem sagt að breyta skilgreiningunni á smábátum, þannig að hámarksstærð færi úr 15 tonnum upp í 30 tonn.

Stefnt á útrýmingu?
„Þeim bátum hefur síðan farið fjölgandi. Nánast einu nýsmíðarnar sem hafa verið í gangi eru þessir stóru 30 tonna bátar. Og þeir taka til sín mikið af heimildum, allt frá þúsund og upp í tvö þúsund tonn, á meðan smábátur í þessum hefðbundna skilningi er að gera út á 100 til 300 tonn af kvóta. Og þá er ég að tala um báta sem eru í heilsársútgerðinni.“

Þeir bátar eru margir hverjir um tólf metrar að lengd, yfirleitt með tvo menn að gera út á línu. Þessum bátum hefur verið að fækka jafnt og þétt.

„Sennilega er það út af því að afkoman hjá okkur, sérstaklega á línuveiðum, hefur ekki verið nógu góð. Það hefur valdið því að margir sem eru búnir að vera lengi í útgerð, komnir á aldur má segja, virðast vera að selja sínar heimildir. Sérstaklega margir af þessum smærri körlum sem eru með svona 30 og allt upp i 80 til 90 tonn eða svo.“

Í Brimfaxa hefur Arthur Bogason, sem lengi var formaður Landsambands smábátaeigenda, ítrekað spurt hvort stjórnvöld hafi hreinlega sett sér þá stefnu að útrýma smábátaútgerð.

Sumir vilja á net
Axel segir að þrátt fyrir þessar þrengingar virðist yngri smábátasjómenn staðráðnir í að halda áfram flestir hverjir.

„Mér heyrist það. Einhverjir eru með væntingar um að minnka kostnaðinn við útgerðina hjá sér með því að fara á netaveiðar, þó þeir séu ekki margir. En ég óttast að það muni koma í bakið á greininni.“

Sérstaða smábátaútgerðarinnar, sem er í krókaaflamarkskerfinu, hefur til þessa ekki síst verið fólgin í því að þeim hefur ekki verið heimilt að veiða á net og landa þar með afla sem er að meðaltali mun betri í gæðum..

Tillaga um að skora á stjórnvöld að leyfa netaveiðar í krókaaflamarkskerfinu var naumlega felld á aðalfundi Landsambandsins í haust, eftir langar umræður þar sem sitt sýndist hverjum.

Netaveiðar þykja ekki jafn umhverfisvænar og línuveiðar, ekki síst vegna þess að hætta er á að selir og fuglar flækist í netin. Þegar kemur að vottunum fyrir ábyrgar og sjálfbærar veiðar veldur þessi hætta á meðafla oft vissum erfiðleikum.

Grásleppan í uppnámi
Nú síðast gerðist það að MSC-vottun á grásleppuveiðar hér við land hefur verið afturkölluð tímabundið vegna þess að meðafli fór yfir viðmiðunarmörk. Grásleppuveiðimenn eru harla ósáttir við þá niðurstöðu.

Axel segir viðbrögðin hafa verið á ýmsa lund.

„Þetta er svo nýskeð, en við þurfum að velta því fyrir okkur hvernig við viljum bregðast við þessu. Hvernig metum við til dæmis áhættuna af því að vera ekki með vottun? Mun það leiða til þess að við seljum ekki hrognin okkar. Eða munu kaupendurnir þá bara kaupa óvottuð hrogn?“

Hann segir suma helst á því að láta reyna á það og prófa að vera eina vertíð án vottunar.

„Þeir róttækustu segja bara að við veiðum ekkert á næstu vertíð, leggjum ekki netin. En kaupendurnir eru dálítið í sömu stöðu og við. Það er búið að búa til þetta norm, að allt eigi að vera MSC-vottað, og hvaða afleiðingar hefur það fyrir þá að geta ekki boðið upp á þessa vöru frá okkur?“

Gagnrýni á Hafró
Axel hefur reyndar harðlega gagnrýnt þá útreikninga sem hafa verið gerðir að forsendu vottunarinnar, þar á meðal í meðaflaskýrslu Hafrannsóknarstofnunar. Selir komi til dæmis nánast eingöngu í net í Breiðafirði, þar sem veiðarnar eru stundaðar á litlu dýpi. Aðstæður fyrir norðan og austan land séu allt aðrar og að mun færri selir komi þar í net.

Hann segir að sérfræðingar Hafrannsóknarstofnunar hafi lagt til að grásleppuveiðum í Breiðafirði yrði einfaldlega hætt, þá yrði þessi vandi að mestu úr sögunni.

Axel krefst þess á móti að Hafró dragi hreinlega meðaflaskýrslu sína til baka.

„Ég vil að Hafró biðji alla hlutaeigandi afsökunar á að hafa eytt tíma þeirra í að vinna út frá handónýtum gögnum. Útselurinn er reiknaður út frá fjórum veiðiferðum sem skiluðu 43 útselum fyrir Vesturlandi og uppreikningur Hafró skilar 2.870 selum. Það voru 16 teistur í sex veiðiferðum fyrir Vesturlandi sem reiknast upp í 998 teistur.“

Hann segir að Hafró muni bíða mikinn álitshnekki þegar að Landsamband smabátaeigenda birti gögnin sem byggt er á.

„Næsta skref er að senda formlegt erindi til ICES þar sem við upplýsum þá um á hvernig gögnum Hafró byggir sýna vinnu og að Hafró vísi í að þeir geri þetta eftir forskrift frá ICES.“

Vonir bundnar við hljóðfælur
Varla sé þó hægt að búast við því að hægt sé að stunda grásleppuveiðar án þess að einhverjir selir komi í netin.

„Á hluta af okkar veiðislóð væri það reyndar raunhæft markmið, en í Breiðafirðinum er það algerlega útilokað. Nema við finnum fælur sem virka.“

Hann segir að tilraunir með hljóðfælur af ýmsu tagi séu enn skammt á veg komnar, en bæði hljóðfælur og hljóðaðlaðanir gætu hugsanlega verið framtíðin.

„Sumir fiskar gefa til dæmis frá sér mökunarhljóð og það er alveg möguleiki að við getum fundið ákveðin hljóð sem laði að sér tilteknar fisktegundir. Og um leið er hægt að vera með hljóð sem fæla selinn, ekki sama hljóðið heldur annað hljóð í sama tækinu.“