þriðjudagur, 22. júní 2021
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

Ekki forsenda til að auka veiðihlutfallið

10. júní 2011 kl. 17:41

Þorskur í trollpoka. (Mynd: Þorgeir Baldursson)

Samráðshópur sérfræðinga og hagsmunaðila telur reynsluna af aflareglunni lofa góðu.

Samráðshópur sérfræðinga og fulltrúa hagsmunaðila í sjávarútvegi, sem sjávarútvegsráðherra skipaði til þess að fjalla um nýtingu helstu nytjastofna, hefur komist að þeirri niðurstöðu að aflaregla fyrir þorsk standist í öllum aðalatriðum fræðilega skoðun og endurspegli vilja um ábyrga stjórnun þorskveiða við Ísland. Reynslan af aflareglunni með tilliti til stofnstærðarþróunar þorsks virðist lofa góðu, samkvæmt mælingum á framvindu stofnstærðar á undanförnum árum.

Sem kunnugt er gengur aflareglan út á það að takmarka veiðar úr þorskstofninum við ákveðið hlutfall af viðmiðunarstofninum. Samkvæmt núgildandi aflareglu er þetta hlutfall nú 20%.

Starfshópurinn segir kostir aflareglunnar vera eftirfarandi: Í fyrsta lagi endurspeglar hún vilja til að tryggja að langtímasjónarmið séu höfð að leiðarljósi við ákvörðun aflamarks í stað skammtímahagsmuna eingöngu. Í öðru lagi er hún einföld og gagnsæ. Í þriðja lagi virðist hún, samkvæmt niðurstöðum     stofnmats, bera árangur hvað snertir uppbyggingu þorskstofnsins. Í fjórða lagi styður hún við markaðsstarf fiskútflytjenda á erlendri grund.

Samráðsvettvangurinn hefur sérstaklega skoðað forsendur fyrir því að hækka veiðihlutfall á grundvelli uppörvandi niðurstaðna úr stofnstærðarmælingum Hafrannsóknastofnunarinnar undanfarin ár og góðra aflabragða. ,,Niðurstöður athugana sýna að þrátt fyrir jákvæðar vísbendingar eru líkurnar að mati Hafrannsóknastofnunarinnar á því að ná markmiði nýtingarstefnunnar m.t.t. stærðar hrygningarstofnsins árið 2015, 220 þúsund tonn, nær óbreyttar frá því núverandi aflaregla var sett. Ekki eru því forsendur til að auka veiðihlutfallið á grundvelli þessarar þróunar,” segir í greinargerð hópsins.

Af hálfu hagsmunaaðila áttu sæti í hópnum fulltrúar frá LÍÚ, LS og FFSÍ.

 Sjá nánar á vef sjávarútvegsráðuneytisins.