miðvikudagur, 13. nóvember 2019
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

Ekki mikið af fiski á Vestfjarðamiðum

1. nóvember 2019 kl. 10:10

Vigri RE. Mynd/Brim

Frystitogarinn Vigri RE kom til hafnar um miðja vikuna. Vigri var með um 550 tonn af blönduðum afla eftir veiðiferð á Vestfjarðamið.

Frystitogarinn Vigri RE kom til hafnar um miðja vikuna. Vigri var með um 550 tonn af blönduðum afla eftir veiðiferð á Vestfjarðamið.

Frá þessu segir á heimasíðu Brims.

„Við vorum á Vestfjarðamiðum allan tímann. Fórum lengst austur eftir í Reykjafjarðarálinn og enduðum svo í Víkurálnum á leiðinni heim,“ segir Árni Gunnólfsson skipstjóri.

Að sögn Árna snerist veiðiferðin að miklu leyti um leit að ufsa en auk þess fékkst ýsa, karfi og þorskur.

„Við vorum lengst af á Halasvæðinu og fengum alveg okkar skammt af brælum. Það verður að segjast eins og er að það er ekki mjög mikið af fiski á Vestfjarðamiðum þessa dagana og þorskur sést varla á Halanum,“ segir Árni en hann segir að dágóð gullkarfaveiði hafi verið í Víkurálnum.

„Við notuðum svo tækifærið og brugðum okkur út á Hampiðjutorgið. Markmiðið var að hitta á  rauða karfann (djúpkarfa) en aflabrögð voru slök. Það var sömuleiðis engin grálúða á Torginu og við fórum því aftur á hefðbundnari mið,“ sagði Árni.