miðvikudagur, 8. desember 2021
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

Ekki ólíklegt að neysluvenjur fólks breytist

Guðsteinn Bjarnason
26. mars 2020 kl. 10:01

Kristján Þór Júlíusson, sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra.

Sjávarútvegsráðherra segir að atvinnuvegaráðuneytið sé að vinna að aðgerðarpakka bæði í sjávarútvegi og landbúnaði. Hann verði kynntur fljótlega, eða öðru hvoru megin við helgina.

Sjávarútvegsráðherra hefur áhyggjur af markaðssetningu íslenskra sjávarafurða erlendis eftir stoppið. Ekkert ólíklegt að neysluvenjur fólks breytist.

„Eftirspurn eftir ferskum fiski er lítil sem engin í Evrópu og sambærileg staða er í Bandaríkjunum," segir Kristján Þór Júlíusson, sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra. Hann ræddi áhrif COVID-19 á bæði sjávarútveg og landbúnað á ríkisstjórnarfundi á þriðjudagsmorgun. Undanfarið hefur hann reglulega upplýst ríkisstjórnina um stöðuna.

„Það er alveg augljóst í mínum huga að ef þetta verður langvarandi ástand mun það óhjákvæmilega hafa töluverðar breytingar í för með sér á erlendum mörkuðum okkar og búa þar til nýjar áskoranir.“

Hann segir þetta ástand mögulega getað sett strik í reikninginn til lengri tíma.

„Það er ekkert ólíklegt að neysluhegðun fólks breytist í framhaldinu og í því eru bæði tækifæri og miklar ógnanir og áskoranir.“

Aðspurður segir hann erfitt að átta sig á því hvernig fyrirtækin eru í stakk búin til að takast á við svona ástand.

„Í sjálfu sér er sjávarútvegurinn ágætlega í stakk búinn til að takast á við breytingar í sínu rekstrarumhverfi. Fyrirtækin hafa sýnt það á undanförnum árum að þau eru mjög vel búin að því sem lýtur að þekkingu og færni í því að koma þessum afurðum okkar í verð á erlendum mörkuðum, og þau eru að framleiða góða vöru. Að þessu leyti er sjávarútvegurinn ágætlega í stakk búinn. Hins vegar eru núna á reiki kraftar sem illt er að ráða við, einhver alheimshreyfing sem snýr að öllu atvinnulífi hvort sem er á Íslandi eða einhvers staðar annars staðar í veröldinni. Þar geta verið einhverjir kraftar að verkum sem íslensk fyrirtæki eiga erfitt með að svara.“

Sameiginlegt markaðsstarf

Kristján segir ráðstafanir stjórnvalda vegna COVID-19 vera almennar ráðstafanir sem eigi að gagnast sjávarútvegi rétt eins og öðrum, enda þótt ljóst sé að mesta höggið verði á ferðaþjónustunni í landinu.

„Hins vegar hef ég áhyggjur af markaðssetningu íslenskra sjávarafurða erlendis og því umhverfi sem þar er. Það er atriði sem við þurfum að gaumgæfa vel, hvernig við getum farið til þess verks,“ segir Kristján og bætir því við að Atvinnuvegaráðuneytið sé að vinna að aðgerðarpakka bæði í sjávarútvegi og landbúnaði. Hann verði kynntur fljótlega, eða öðru hvoru megin við næstu helgi.

Kristján er ennfremur spurður um hugmyndir íslenskra sjávarútvegsfyrirtækja um sameiginlegt markaðsstarf erlendis, sem þau hafa verið að undirbúa um nokkurt skeið undir yfirskriftinni Pride of Iceland. Kristján segir að þau Þórdís Kolbrún R. Gylfadóttir ferðamálaráðherra hafi rætt þetta sín á milli. Sjálfur hafi hann viðrað það að taka undir þær hugmyndir sem sjávarútvegurinn hefur verið með um markaðssetningu á íslensku sjávarfangi erlendis.

„Mér finnst einboðið að við gaumgæfum það vel í þessari stöðu sem er að byggjast upp.“

Lifum frá degi til dags

Friðrik Mar Guðmundsson, framkvæmdastjóri Loðnuvinnslunnar á Fáskrúðsfirði, segir ástandið erfitt og flest óljóst um framhaldið.

„Við lifum svolítið frá degi til dags. Það eru alltaf nýjar sviðsmyndir. Þetta er náttúrlega fordæmalaust ástand sem landið er í.“

Austurland hafði verið laust við smit þangað til á þriðjudag þegar þar greindist í fyrsta sinn smit. Friðrik segir þó enn möguleika á að sporna við frekari útbreiðslu. Loðnuvinnslan hafi eins og önnur fyrirtæki í landinu gert margvíslegar ráðstafanir vegna faraldursins.

„Við erum búnir að loka eins og hægt er milli deilda og mötuneytið er bara fyrir frystihússfólk. Þar kemur enginn annar inn. Svo erum við alls staðar að reyna að gæta að þessum reglum, að menn fari varlega og séu með tvo metra á milli sín og allt þetta.“

Reksturinn hefur verið í fullum gangi og Friðrik segir að brátt styttist í páska og þá er fimm daga frí hjá fólki.

„Ferskfiskurinn datt meira og minna út í síðustu viku, en hann er örlítið að koma inn aftur. Við fluttum í síðustu viku út 10 prósent af því sem við fluttum út í vikunni þar áður, og núna í þessari viku kannski 30 prósent af því sem við vorum með áður.“

Á þriðjudagskvöld kom færseyska skipið Gitte Henning með 3.200 tonn til löndunar hjá Loðnuvinnslunni og á laugardagskvöld kom Hoffellið með fullfermi. Ekki sé vitað um frekari landanir á næstunni, en Friðrik segir færeysku útgerðina landa oft hjá Loðnuvinnslunni. Auk Gitte Henning er hún með Þránd í Götu, Finn fríða og Júpíter.

Óvenjulegir tímar

„Þetta eru bara mjög óvenjulegir tímar, það verður að segjast eins og er,“ segir Sigurgeir Brynjar Kristgeirsson, framkvæmdastjóri Vinnslustöðvarinnar í Vestmannaeyjum.

„Maður verður að taka bara hvern dag í einu og hamast í honum.“

Þegar slegið var á þráðinn til hans á þriðjudag hafði ekkert smit borist inn í fyrirtækið, en ástandið í Eyjum var mjög erfitt orðið. Þar voru tíu prósent íbúa komnir í sóttkví og eitt prósent með smit.

„Þetta er 300 manna vinnustaður og starfsemin alveg í gangi, vinnslan á fullu en það eru allir orðnir stressaðir yfir þessu.“

Hann segir að bátarnir hafi verið stoppaðir í einn dag meðan menn voru að átta sig á ástandinu, enda mikið í húfi. Ráðstafanir hafi verið gerðar eins og hægt er.

„Það er auðvitað þessi hætta að ef einhver finnst sýktur, hvaða afleiðingar hefur það inni í fyrirtækinu. Þetta er heilmikil glíma,“ segir hann.

„Við erum þokkalega seld með allar okkar afurðir okkar núna, ekki með neinar birgðir fyrir framan okkur. Það sem er stóra málið er hvað gerist í útlöndum. Við erum í útflutningi en maður áttar sig ekki alveg á þessu. Fólk mun halda áfram að borða.“