þriðjudagur, 28. september 2021
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

Ekki tilefni til bjartsýni

16. febrúar 2016 kl. 14:37

Loðna í lófa

Líkur á að fyrri loðnumæling og útgefið aflamark standi.

Árni Friðriksson, rannsóknaskip Hafrannsóknastofnunar, liggur í vari á Arnarfirði. Loðnuleit lauk um helgina og verið er að fara yfir gögnin úr leitinni. Birkir Bárðarson, leiðangursstjóri á Árna Friðrikssyni, segir  í samtali við RÚV að líkur séu á að fyrri mælingar og útgefið aflamark standi. 

„Við erum með mælingar úr tveimur skipum og það er verið að samkeyra upplýsingarnar. Veður hefur verið erfitt til mælinga,“ segir Birkir.  Mælingin sem gengið er út frá var gerð í janúar við mjög góðar aðstæður. Árni Friðriksson náði þá mælingu með landgrunnsbrúninni frá Grænlandssundi austur að Bakkaflóadjúpi í góðu veðri og mat veiðistofninn um 675 þúsund tonn. 

Birkir segir að það sé ekki óvenjulegt að það sjáist mikið af loðnu hér og þar og tilkynnt sé um það. „675.000 tonn er vissulega þó nokkuð magn af loðnu en það gefur ekki tilefni til þess að gefa út mikinn kvóta miðað við nýjar aflamarksreglur. Í góðu ári má segja að yfir 1.000.000 tonn sé viðmið sem er  hægt að ganga útfrá að gefi af sér það sem kallað er góð vertíð.“