þriðjudagur, 28. janúar 2020
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

Ekki unninn fiskur á Íslandi að óbreyttu

Guðjón Guðmundsson
21. ágúst 2019 kl. 08:00

Arnar Atlason, framkvæmdastjóri Tor ehf. Aðsend mynd.

Erlendir kaupendur og milliliðir þeirra stærstir á fiskmörkuðum.

Arnar Atlason, framkvæmdastjóri Tor ehf. og formaður Samtaka fiskframleiðenda og útflytjenda, segir aukna eftirpurn erlendis frá eftir óunnum fiski hafa þau langtímaáhrif að fiskverð fari hækkandi á Íslandi. Gríðarleg aukning hafi orðið á útflutningi á óunnum fiski í gámum marga undanfarna mánuði. Erlendir fiskkaupendur og milliliðir þeirra séu orðnir stærstu kaupendur á íslensku fiskmörkuðunum.

„Verð er engin sérstök fyrirstaða hjá þessum aðilum. Ég held að margir samverkandi þættir skýri þessa þróun. Einn þátturinn er sá að vinnuafl er margfalt dýrara á Íslandi en í þeim löndum sem kaupa fiskinn til frekari vinnslu. Eimskip hefur aukið tíðni siglinga til Eystrasaltslandanna og Póllands. Það er áleitin spurning hvers vegna skipafélagið sér sig skyndilega knúið til þess,“ segir Arnar.

Samkvæmt heimildum Fiskifrétta óttast margir að íslenskur fiskur sem unninn er í Lettlandi og Póllandi komi inn á evrópskan neytendamarkað merktur sem íslenskur fiskur í beinni samkeppni við íslenska fiskvinnslu.

Arnar kveðst ekki hafa upplýsingar um þetta en segir: „Sú spurning vaknar hvernig hagnast megi á því að flytja inn fisk frá Íslandi til Lettlands og Póllands með tilheyrandi flutningskostnaði og gæðarýrnun? Hugsanlega er hann seldur inn á neytendamarkað í Evrópu í sparifötunum sem spriklandi ferskur fiskur af Íslandsmiðum.“

Milliliðir stærstu kaupendurnir

Fyrir örfáum misserum voru Frostfiskur og Toppfiskur stærstu kaupendurnir á fiskmörkuðunum. Bæði fyrirtækin eru hætt starfsemi. Leitað var til Reiknistofu fiskmarkaðanna sem veitir ekki upplýsingar um stærstu einstöku kaupendurna á fiskmörkuðunum. Samkvæmt heimildum Fiskifrétta er íslenska fyrirtækið Iraco núna stærsti einstaki kaupandinn. Allur fiskur sem fyrirtækið kaupir fer óunninn í gáma til endanlegra kaupenda í Evrópu.  Aðrir stórir íslenskir milliliðir eru Atlantic Seafood og Elite Seafood sem kaupa fisk fyrir erlenda aðila á fiskmörkuðunum hér á landi.

Tor ehf. kaupir um 3.000 tonn af fiski á ári og þegar mest lét var um helmingur þess flatfiskur. Núna er flatfiskur einungis um 15% af heildarmagninu sem fyrirtækið kaupir. Skýringin á þessu er gríðarleg aukning á kola í gámum aðallega til Hollands.

„Þetta hefur staðið yfir núna í tæp tvö ár og við erum bara ekki samkeppnisfærir. Þetta á ekki einungis við um okkur. Tvö af stærri fyrirtækjunum í vinnslu á sjávarafurðum án útgerðar urðu bæði gjaldþrota og það segir margt um það hvernig þessi slagur er. Það sem mig hefur fundist skorta er almenn vitneskja um þann mikla virðisauka sem verður til við vinnslu sjávarafurða á Íslandi. Það verður ekki hagvöxtur á Íslandi sem byggður er á sjávarútvegi ef við flytjum fiskinn úr landi óunninn. Mín svartasta spá er reyndar sú að það verði ekki unninn fiskur á Íslandi innan fáeinna ára ef svo heldur fram sem horfir,“ segir Arnar.

Ekki samkeppnishæfir í vinnuafli

Arnar segir að íslensk fiskvinnsla sé ekki samkeppnishæf með vinnuafl í samanburði við þær þjóðir sem nú láta að sér kveða í fiskkaupum frá Íslandi. Þegar hann hóf sjálfur að starfa við sjávarútveg fyrir um 30 árum þurfti launagreiðandi greiða 1,50 krónur til þess að koma einni krónu í vasa launþegans. Nú er þetta hlutfall komið í þrjár krónur með tryggingagjaldi, mótframlagi í lífeyrissjóði og öðrum launatengdum gjöldum. Það sé fyrst og fremst launatengd gjöld fremur en launahækkanir sem hafa valdið því að það dregur úr samkeppnisfærni sjávarútvegsins og fleiri greina.

„Ég lít á stóraukinn útflutning á óunnum fiski sem merki þess að við höfum misst þessa samkeppnisstöðu. Svo má ekki gleyma því að stórútgerðirnar sem eiga veiðiheimildirnar búa við allt aðra samkeppnisstöðu. Dæmi er um stórútgerð sem landað hefur tugum gáma á undanförnum mánuðum hér í Hafnarfirði af óunnum fiski sem fer í útflutning. Ég óttast að svona verði þetta í framtíðinni. Það má líka líta til vaxtar í eldi á laxi hér á landi en laxinn er fluttur út að langmestu leyti óunninn.“

Markaðsbrestir

Arnar segir að hægt væri að auka þjóðartekjur Íslands af sjávarútvegi margfalt með því að nýta auðlindina betur. Samkeppni drífi áfram verðmætaaukningu og þess vegna verði að tryggja að samkeppni sé til staðar.

„Það eru mjög áberandi markaðsbrestir víða í sjávarútvegi. Fákeppnin blasir við og við horfum í gegnum fingur okkar með tvöfalda verðlagningu. Milliverðlagning, á ensku „transfer pricing“, er talin lögbrot annars staðar í heiminum en hér er hún nánast bara samþykkt og viðurkennd. Stóru útgerðarfyrirtækin mörg hver hér á landi eiga útgerðina, vinnsluna, sölufyrirtækin hérna heima og fyrirtækin erlendis sem kaupa af þeim. Þetta kallar á óeðlilega milliverðlagningu sem skapar tækifæri til að undirverðleggja allt í keðjunni til þess að lækka launakostnað, kostnað vegna hafnargjalda og gjalda fyrirtækjanna og launþeganna til hins opinbera í formi tekjuskatts. Það hefur legið fyrir álit frá Samkeppnisstofnun frá árinu 2012 um að þetta fyrirkomulag sé óeðilegt. En ekkert gerist.“

Baráttumál Samtaka fiskframleiðenda og útflytjenda er ekki lengur að allur fiskur fari á markað heldur að það verð sem myndast á fiskmörkuðum landsins verði á öllum lönduðum fiski, ellegar að útgerðum sem landi á fiskmarkað verði gert mögulegt að gera upp á sama verði og þeir sem það gera ekki.

„Útgerðir sem gera upp á svokölluðu verðlagsstofuverði gera upp þorskafla við sína sjómenn á bilinu 200-300 krónur á kílóið. Á sama tíma gera útgerðarmenn sem landa á fiskmarkaði upp við sína sjómenn á yfir 400 krónum um þessar mundir. Það er því fast að því tvöfaldur launakostnaður hjá þeim útgerðarmönnum í samanburði við þá sem gera upp á verðlagsstofuverði. Í þessu felst markaðsbrestur,“ segir Arnar.