þriðjudagur, 18. júní 2019
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

Ekki verður reynt í Faxaflóa

Guðjón Guðmundsson
24. maí 2019 kl. 14:20

Á hrefnuveiðum. Mynd/HAG

Hrafnreyður KÓ á hrefnuveiðar í júní

Allt stefnir í að Hrafnreyður KÓ verði gerður út á hrefnuveiðar í sumar líkt og undanfarin ár. IP-útgerð hefur frá því í fyrra gert skipið út á sæbjúgnaveiðar en það fer í slipp í júní þegar bann við þeim veiðum tekur gildi og að lokinni klössun verður farið á hrefnuveiðar.

Mikil og jöfn spurn er eftir hrefnukjöti á landinu, ekki síst frá veitingahúsum og mun meiri en framboðið hefur verið. IP-útgerð mætt þessu með innflutningi á hrefnukjöti. Hafrannsóknastofnun ráðleggur að árlegar veiðar verði ekki meiri en 217 dýra á íslenska landgrunninu.  Hrefnuveiðar hafa undanfarin ár verið langt innan ráðlagðs hámarksfjölda Hafrannsóknastofnunar.

Endasleppt í meira lagi

Gunnar Bergmann hjá IP-útgerð segir að síðasta sumar hafi þó verið endasleppt í meira lagi. Einungis náðist að veiða sex dýr. Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir, þáverandi sjávarútvegsráðherra, lokaði veiðisvæðum í Faxaflóa fyrir sumarið 2017 þar sem um 82% af öllum hrefnum hafa veiðst undanfarin ár. Útgerðin hefur tekið þetta mál upp við Kristján Þór Júlíusson sjávarútvegsráðherra en ekki haft erindi sem erfiði.

„Við förum líklega af stað upp úr miðjum júní þegar skipið kemur úr slipp. Í fyrra reyndum við fyrir okkur fyrir utan friðunarlínuna í Faxaflóa en veiðarnar gengu mjög illa og við gáfumst upp eftir að hafa náð sex dýrum. Þetta er minnsta veiðin frá upphafi og yfirleitt höfum við náð að veiða um 40 dýr. Í hitteðfyrra voru þau þó ekki nema rétt um 20 talsins,“ segir Gunnar.

Hann telur nokkuð ljóst að hrefnan hafi fært sig vestar, norðar og jafnvel austar. Mun færri dýr séu í Faxaflóa en verið hafi.

„Það er alla vega alveg ljóst að við erum ekki að fara veiða í Faxaflóanum í sumar. Hann er ennþá lokaður en við höfðum vonast til þess að nýr ráðherra myndi endurskoða ákvörðun forvera síns. Við getum ekki lengur farið í dagróðra og þurfum því að manna skipið með fjórum réttindamönnum. Þetta gerir alla útgerðina mun dýrari. Lokunin var skyndiákvörðun en við hefðum þurft lengri tíma til að skipuleggja veiðarnar með öðrum hætti á fjarlægari miðum.“