laugardagur, 4. apríl 2020
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

Eldisfiskur skríður upp vinsældarlistann í Ameríku

14. september 2011 kl. 14:14

Tilapia

Tilapía er í fjórða sæti vinsældarlistans og pangasíus í því níunda.

Birtur hefur verið listi The National Fisheries Institute yfir tíu vinsælustu tegundir neyslufisks í Bandaríkjunum árið 2010. Það sem sætir mestum tíðindum er að eldistegundirnar tilapía og pangasíus halda áfram að skríða upp vinsældarlistann á kostnað annarra tegunda.

Tilapia er nú komin í fjórða sæti listans og hefur ýtt alaskaufsanum aftur fyrir sig.  Neyslan á tilapíu nemur 1,45 pundum á hvert mannsbarn í Bandaríkjunum. Pangasíusinn hækkaði úr tíunda sæti í hið níunda en neysla hans var 0,405 pund á mann í fyrra sem nálgast óðfluga neyslu á þorski.

Rækja er nú sem fyrr vinsælasta sjávarfangið en af henni borðar hver Bandaríkjamaður fjögur pund á ári að meðaltali. Alls nam fiskneysla þeirra á mann 15,8 pundum þannig að rækjan er fjórðungur af því.

Í öðru sæti listans var niðursoðinn túnfiskur (2,7 pund á mann), í því þriðja lax (2,04 pund), tilapian fjórða í röðinni eins og áður sagði, alaskaufsi fimmti, catfish í sjötta sæti, krabbi í því sjöunda, þorskur í áttunda sæti (0,463 pund á mann), pangasíus í því níunda og skel í því tíunda.