mánudagur, 19. ágúst 2019
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

Eldri kynslóðir trúar fiski og frönskum

svavar hávarðsson
4. desember 2018 kl. 07:00

Fish&Chips er ennþá vinsæll matur en helst meðal eldri kynslóða. Mynd/EPA

Miklu fleiri skyndibitastaðir á Bretlandseyjum selja fiskmeti heldur en þekktustu sölukeðjurnar Macdonalds og KFC hafa til umráða.

Miklu fleiri skyndibitastaðir á Bretlandseyjum selja fiskmeti heldur en þekktustu sölukeðjurnar Macdonalds og KFC. En þeir sem sækja þessa veitingastaði heim – aðallega til að fá sér fisk og franskar – eru flestir á aldursbilinu 50 ára til 64 ára. Vöxtur á sölu sjávarfangs í gegnum veitingastaði skýrist á sölu á sushi – en þar eru yngri hópar áberandi eins og víðar í heiminum. Þar er laxinn vinsælastur.

FISHupdate segir frá þessum niðurstöðum European market Observatory for Fisheries and Aquacilture (EUMOFA).

Í úttektinni kemur fram að Bretar sækja sinn fisk mun frekar til veitingastaða en annars staðar í Evrópu. Það á við um 49% af heildarmagninu í Bretlandi á móti 20% í Frakklandi, svo dæmi sé tekið. Það eru miklir peningar sem skipta um hendur í þessum viðskiptum í Bretlandi, eða tæplega þrír milljarðar punda – eða 424 milljarðar íslenskra króna.

Fish&Chips veitingastaðir eru mest áberandi og afgreiða 176 milljónir máltíða á ári hverju.

Breytingar við hrunið

EUMOFA bendir á að breytingar urðu í neyslu á sjávarfangi í Bretlandi við efnahagshrunið 2008. Margir hættu að kaupa sér sjávarfang á dýrari veitingastöðum, en snéru sér þess í stað að skyndibita. Fish and Chips veitingastaðir nutu þessa sérstaklega, en þeir eru 10.500 talsins. Veitingastaðir MacDonalds eru 1.200 í samanburði og KFC reka 900 kjúklingastaði.

Sushi

Vöxtur á sölu fiskmetis virðist þó eindregið koma fram í skyndibitakeðjum sem selja sushi, og annað sjávarfang upp á japanskan máta.

Þegar allt er talið þá hefur sjávarfang hins vegar gefið eftir gagnvart sölu á öðru próteini og kemur fjórða á listanum. Markaðshlutdeild sjávarfangs er þar aðeins 14,5 prósent. Sjávarfang þykir mönnum líka dýrt, sýnir könnun EUMOFA.

Þorskur og samviskubitið

Bretar borða nærri 70 þúsund tonn af þorski á hverju ári. Megnið af honum hefur síðustu árin verið fluttur inn frá Noregi og Íslandi, en Íslendingar hafa verið að selja þorsk til Bretlands fyrir ríflega 20 milljarða á ári.

Frá því var hins vegar greint á dögunum að þorskveiðar í Norðursjó væru eftir margra ára píslargöngu orðnar sjálfbærar að nýju. Þetta er mikill viðsnúningur því upp úr síðustu aldamótum hrundi þorskstofninn í Norðursjó vegna ofveiði og voru veiðiheimildir verulega skertar í kjölfarið  - og voru litlar sem engar árið 2006. Þegar veiðar á Norðursjávarþorski voru í hámarki á miðjum áttunda áratugnum veiddu sjómenn hins vegar 270 þúsund tonn.