fimmtudagur, 24. júní 2021
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

Endurbótum á Vopnafirði miðar vel

5. janúar 2019 kl. 10:01

Hluti fiskmjölsverksmiðju HB Granda á Vopnafirði. Mynd/HB Grandi/ESE.

Verið er að skipta út þremur af eimingartækjum fiskimjölsverksmiðju HB Granda á Vopnafirði. Vinnu á að ljúka 20. janúar.

Þessa dagana er unnið að endurbótum á fiskmjölsverksmiðju HB Granda á Vopnafirði. Verið er að skipta út þremur af eimingartækjum verksmiðjunnar og koma ný í staðinn. Þetta er mikið verk sem hófst í vikunni fyrir jól en því á að vera lokið fyrir 20. janúar.

Frá þessu segir í frétt á heimasíðu fyrirtækisins.

„Það var kominn tími á þessar endurbætur enda eru gömlu eimingartækin, sem við skiptum út, orðin 20 til 30 ára gömul. Með nýju tækjunum eiga afköstin að verða stöðugri og aukast frá því sem nú er. Það bætir rekstraröryggið. Of snemmt er að segja til um um áhrifin á orkunotkunina en við erum að vona að nýju tækin eyði minni raforku,” segir Sveinbjörn Sigmundsson, verksmiðjustjóri HB Granda á Vopnafirði, í fréttinni.

Nýju eimingartækin voru smíðuð hjá Héðni hf. og sjá starfsmenn þess fyrirtækis um uppsetninguna með hjálp starfsmanna verksmiðjunnar og verktaka á Vopnafirði. Eimingartækin eru engin smásmíði og þyngsti eimarinn vó t.a.m. um 20 tonn.

„Við fengum trésmíðafyrirtæki á staðnum til að rjúfa þak verksmiðjunnar og svo voru gömlu tækin hífð út og þau nýju inn. Okkur telst til að þetta hafi alls verið 160 til 170 tonn. Það gefur að skilja að það er erfitt verk að koma öllu fyrir og við höfum þurft að vinna allt upp í 18 metra hæð frá gólfi. En verkinu miðar mjög vel og við bætum bara í ef aflafréttir nú eftir áramótin gefa tilefni til þess,” segir Sveinbjörn.