sunnudagur, 15. desember 2019
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

Ekkert framlag til fjárfestinga í hafrannsóknum

14. desember 2017 kl. 11:00

Hafrannsóknaskipið Bjarni Sæmundsson er komið mjög til ára sinna.

Hafrannsóknarstofnun fær 165 milljóna tímabundið framlag úr ríkissjóði til aukinna hafrannsókna, samkvæmt nýju fjárlagafrumvarpi. Ekki er samt gert ráð fyrir neinum fjárfestingum í málaflokknum.

Í nýju fjárlagafrumvarpi ríkisstjórnar Katrínar Jakobsdóttur fyrir árið 2018, sem Bjarni Benediktsson fjármálaráðherra kynnti í morgun, er ekki gert ráð fyrir neinum fjárfestingum til Hafrannsóknastofnunar né annarra rannsókna, þróunar og nýsköpunar í sjávarútvegi. Stofnunin fær hins vegar 165 milljóna tímabundið framlag til aukinna hafrannsókna.

Hafrannsóknaskipið Bjarni Sæmundsson er kominn svo mjög til ára sinna að endurnýjun er orðin brýn, eins og Fiskifréttir sögðu frá í sumar.

„Það er eitthvað sem þarf að taka á þegar í stað,“ sagði Sigurður Guðjónsson, forstjóri Hafrannsóknastofnunar, á fundi í sumar þar sem ástand nytjastofna sjávar og ráðgjöf stofnunarinnar var kynnt.

Nærri hálf öld er síðan skipið var smíðað og varð alvarleg bilun í haust til þess að loðnuleiðangur tafðist um 11 daga.

Framlög úr ríkissjóði til Hafrannsóknarstofnunar verða 2.472 milljónir á næsta ári, samkvæmt frumvarpinu, en voru 2.135 milljónir á fjárlögum síðasta árs. Alls er gert ráð fyrir að heildarframlög til stofnunarinnar nemi 4.157 milljónum, en á móti komi rekstrartekjur upp á 1.686 milljónir.

Heildarframlög til rannsókna, þróunar og nýsköpunar í sjávarútvegi verða 5.383 milljónir króna og hækka um sjö prósent frá síðasta ári. Á móti er gert ráð fyrir rekstrartekjum upp á 2.296 milljónir, og er þá gert ráð fyrir 2,2 prósent tekjuhækkun.

Gert er ráð fyrir að Hafrannsóknarstofnun fái 165 milljóna tímabundið framlag til aukinna rannsókna á árinu.

„Vegna breyttra hafstrauma og sjávarhita við Ísland hefur útbreiðsla og stofnstærð ýmissa fiskistofna breyst,“ segir í frumvarpinu. „Sérstaklega eru þessar breytingar hraðar í uppsjávarfiskum. Útbreiðsla loðnu hefur breyst mikið undanfarin ár, mælingar og rannsóknir taka því meiri tíma en áður og eru kostnaðarmeiri. Gert er ráð fyrir að auka rannsóknir með auknu úthaldi rannsóknaskipa.“

Þá er í frumvarpinu gert ráð fyrir að 55 m.kr. verði forgangsraðað til endurnýjunar tölvustýribúnaðar

rannsóknaskipsins Árna Friðrikssonar. 

„Tölustýrirbúnaðurinn er tæplega 20 ára og er framleiðandinn hættur þjónustu á búnaðinum. Ef búnaðurinn bregst er skipið ónothæft í langan tíma og ógnar þetta rekstraröryggi skipsins.“

Ennfremur er gert ráð fyrir að 30 m.kr. verði forgangsraðað til Hafrannsóknastofnunar til þess að styrkja loðnurannsóknir með ráðningu sérfræðinga í líkanagerð og bergmálsmælingum.

gudsteinn@fiskifrettir.is