mánudagur, 18. janúar 2021
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

Engar forsendur ennþá fyrir auknum loðnukvóta

16. febrúar 2010 kl. 12:34

,,Rannsóknaskipið Árni Friðriksson er búið að mæla loðnu austan frá Langanesi, suður með Austfjörðum og allt vestur að Ingólfshöfða, þar sem skipið er statt núna.  Við teljum að leiðangursmenn hafi náð vel utan um þá loðnu sem er á þessu svæði,” sagði Þorsteinn Sigurðsson sviðsstjóri á Hafrannsóknastofnun í samtali við Fiskifréttir nú um hádegisbilið.

Þá skoðaði rannsóknaskipið Bjarni Sæmundsson fyrir þremur dögum svæðið frá Kolbeinseyjarhrygg að Langanesi en þar var enga loðnu að sjá. Þessu til viðbótar hafa veiðiskip verið í smærri mælingum fyrir Hafrannsóknastofnun. Bjarni Ólafsson AK var í gær uppi í Fjallasjónum og Börkur NK var við mælingar í síðustu viku fremst í göngunni. ,,Þessar mælingar í heild hafa ekki skapað neinar forsendur fyrir endurskoðun á útgefnum loðnukvóta,” sagði Þorsteinn.

Þorsteinn sagði að fremsti hluti loðnugöngunnar hefði verið kominn fyrir Reykjanesið á föstudag og verið fyrir vestan Stafnesið í gær en hefði þá hægt á sér vegna norðanáttarinnar.

Fram kom í máli hans að ekki væri um eina afmarkaða risagöngu að ræða eins og þekktist áður fyrr heldur væri loðnan í smáum göngum á nokkrum stöðum með suðurströndinni. Ennþá væru um 100 þúsund tonn ókomin að austan.

,,Við tökum stöðuna á málinu þegar yfirferð Árna Friðrikssonar er lokið,” sagði Þorsteinn Sigurðsson.