þriðjudagur, 28. september 2021
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

Engar stórhvalaveiðar næsta sumar

25. febrúar 2016 kl. 08:30

Veiðunum sjálfhætt ef Japanir taka ekki upp nútímalegri rannsóknir á kjötinu, segir forstjóri Hvals hf.

Engar stórhvalaveiðar verða stundaðar við Íslandsstrendur í sumar vegna mikilla erfiðleika við að koma afurðunum á markað í Japan. Morgunblaðið greinir frá þessu. Kristján Loftsson, framkvæmdastjóri Hvals, segir í samtali við blaðið að fyritækið hafi mætt endalausum hindrunum í Japan. Meðal annars geri Japanir síendurteknar efnagreiningar á kjötinu með mjög gamaldags og afar tímafrekum aðferðum, sem hvergi tíðkist annarstaðar.

Verði því ekki breytt muni Hvalur ekki geta stundað hvalveiðar fyrir Japansmarkað, sem jafnframt sé aðalmarkaður fyrirtækisins fyrir hvalkjöt.

Ýmislegt hafi verið reynt til að leysa þetta vandamál, bæði sendiherra og ráðherrar hafi tekið málið upp við japönsk yfirvöld, en allt komið fyrir ekki. Því sé veiðunum sjálfhætt. Segir Kristján að Hvalur hefði aldrei tekið upp hvalveiðar að nýju árið 2009, eftir 20 ára hlé, hefðu menn vitað hvað í vændum var þar eystra.